Eins og það sé verið að búa til fréttir

Telegraph birti umfjöllun sína á sunnudag og Daily Mail fylgdi …
Telegraph birti umfjöllun sína á sunnudag og Daily Mail fylgdi í kjölfarið. Samsett mynd/Skjáskot/mbl.is/Ómar Óskarsson

Ekki er hægt að segja til um hvaða áhrif rangar fullyrðingar erlendra fjölmiðla um íslenska ferðaþjónustu kunna að hafa á ferðaþjónustuna á Íslandi. Sem betur fer hefur umræddur fréttaflutningur ekki fengið mikla dreifingu. 

Þetta segir Pétur Óskarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við mbl.is. 

mbl.is fjallaði í dag um rangar fullyrðingar breska dagblaðsins Telegraph um íslenska ferðaþjónustu þar sem segir að svokölluð ferðamannabóla á Íslandi sé sprungin. 

Heldur miðillinn því fram að ferðamönnum hafi fækkað um 6% á síðasta ári þrátt fyrir að engin gögn sýni fram á það. 

Breska dagblaðið Daily Mail hefur einnig lagt út af þessum fréttaflutningi en miðillinn rekur ástæðuna m.a. til falls flugfélagsins Play í síðasta mánuði. 

Pétur Óskarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Pétur Óskarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Sigurður Bogi

„Eins og það sé verið að fabúlera“

„Mér skilst að þetta hafi ekki fengið mikla dreifingu þrátt fyrir að þetta hafi farið í þessa tvo miðla, sem er gott,“ segir Pétur.

Eins og greint var frá fyrr í dag er þetta ekki í fyrsta skipti sem Telegraph heldur fram röngum upplýsingum um íslenska ferðaþjónustu. Slík umfjöllun hefur birst reglulega í blaðinu á síðustu átta árum. 

Spurður út í þetta segir Pétur erfitt að segja til um hvað kunni að liggja þarna á baki þar sem tölur frá Ferðamálastofu hafi allt aðra sögu að segja. 

„Maður vill ekki trúa því að svona miðlar séu að búa til fréttir en þetta lítur þannig út, eins og það sé verið að fabúlera eitthvað sem vekur athygli,“ segir Pétur. 

Heldurðu að svona fréttaflutningur kunni að hafa skaðleg áhrif?

„Ef þetta flýgur ekki meira en þetta þá held ég nú ekki. En ef svona fer um hnöttinn þá er þetta mjög vont,“ segir Pétur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert