Flugumferðarstjórar boða hrinu verkfallsaðgerða

Arnar Hjálmsson, formaður félags íslenskra flugumferðarstjóra.
Arnar Hjálmsson, formaður félags íslenskra flugumferðarstjóra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Félag íslenskra flugumferðarstjóra hefur boðað til fimm verkfallsaðgerða frá og með aðfaranótt mánudags.

Þetta staðfestir Arnar Hjálmsson, formaður félagsins, í samtali við mbl.is.

Þegar hafði verið greint frá því að flugumferðarstjórar ætluðu að leggja niður störf á sunnudagskvöld ef samningar takast ekki í kjaradeilu þeirra og Samtaka atvinnulífsins sem var vísað til ríkissáttasemjara í apríl.

Á mismunandi svæðum

Áætlað er að sú stöðvun hefjist klukkan 22 á sunnudagskvöldi og standi til klukkan 3 aðfaranótt mánudags.

Verður hún á svokölluðu aðflugssvæði á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli og mun hafa áhrif á áætlunarflug á völlunum tveimur. Undantekning verður gerð fyrir neyðar- og sjúkraflug.

Nú hafa flugumferðarstjórar einnig boðað til aðgerða á þriðjudag, fimmtudag, föstudag og laugardag í næstu viku.

Arnar segir að ein aðgerðanna sé boðuð á sama svæði og verkfallsaðgerðin á sunnudaginn en að hinar fjórar verði á öðrum svæðum, í flugturninum á Reykjavíkurflugvelli, flugturninum á Keflavíkurflugvelli og hinu svokallaða úthafssvæði.

Hóflegar væntingar

Flugumferðarstjórar funduðu með SA í dag en sá fundur skilaði litlu að sögn Arnars sem segir að deilan strandi fyrst og fremst á launaliðnum eða launaþróun.

„Það er verið að reyna að finna einhverja ásættanlega leið fyrir báða aðila með öðru hvoru eða blöndu af tvennu.“

Annar fundur í deilunni hefur verið boðaður á fimmtudag en spurður hvort hann telji að samningar náist þá segir Arnar:

„Eins og staðan er í dag þá eru kannski væntingarnar hóflægar en við skulum alltaf kalla það bjartsýni samt. Það er engin ástæða til þess að mæta svartsýni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert