Flugumferðarstjórar boða vinnustöðvun á sunnudag

Arnar Hjálmsson, formaður félags íslenskra flugumferðarstjóra.
Arnar Hjálmsson, formaður félags íslenskra flugumferðarstjóra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flugumferðarstjórar ætla að leggja niður störf á sunnudagskvöld ef samningar takast ekki í kjaradeilu þeirra og Samtaka atvinnulífsins sem var vísað til ríkissáttasemjara í apríl.

Arnar Hjálmsson, formaður félags íslenskra flugumferðarstjóra, segir í samtali við mbl.is að búið sé að boða vinnustöðvun sem á að hefjast klukkan 22 á sunnudagskvöldi til klukkan 3 aðfaranótt mánudags.

„Við vonum að það verði ekkert af þessu en við erum komin á þann stað í þessum viðræðum að við erum tilneydd til að beita þessum úrræðum ef samningar nást ekki,“ segir Arnar, sem var staddur í húsakynnum ríkissáttasemjara þegar mbl.is náði tali af honum en flugumferðarstórar munu funda þar með Isavia og Samtökum atvinnulífsins.

Kjaradeilu flugumferðarstjóranna og Samtaka atvinnulífsins var vísað til ríkissáttasemjara í apríl.

Verður að vera bjartsýnn

„Við sömdum í janúar í fyrra út síðasta ár og byrjuðum strax í apríl í fyrra aftur í viðræðum. Við erum því búin að vera í þessum viðræðum um þennan samning síðan í apríl á síðasta ári. Við skrifuðum undir samning í ágúst sem var felldur og þar með þurftum við að hugsa stöðuna upp á nýtt,“ segir Arnar.

Spurður hvort það ríki bjartsýni í hans herbúðum um að samningar takist segir hann:

„Verður maður ekki bara að vera bjartsýnn. Við erum ekki að boða vinnustöðvanir til þess eins að fara í þær.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert