„Hvernig ferðamannabólan á Íslandi sprakk loksins.“
Þannig hljóðar fyrirsögn breska dagblaðsins Telegraph á umfjöllun sem blaðið birti á vef sínum á sunnudag.
Daily Mail lagði út af þessu í gær og slengir upp: „Af hverju ferðamenn snúa baki við Íslandi á sama tíma og ferðaþjónustan hrynur og lággjaldaflugfélag fer á hausinn.“
Fullyrðingar miðlanna eru þó reistar á röngum gögnum, eða jafnvel engum, eins og vikið verður að hér neðar.
Í umfjöllun Daily Mail segir að svo virðist sem ferðamenn flykkist ekki lengur til þessa lands elds og ísa, eftir fall flugfélagsins Play.
Bent er á að þetta sé í annað sinn á sex árum sem íslenskt lággjaldaflugfélag fari á hausinn, áður en rifjað er upp hvernig vinsældir Íslands hafi aukist gífurlega á öðrum áratug aldarinnar, meðal annars vegna eldgossins í Eyjafjallajökli og þáttaraðarinnar Game of Thrones.
„Fall Play kemur aðeins sex árum eftir svipað hrun Wow Air á Íslandi, sem skildi 4.000 farþega eftir sem strandaglópa þegar það fór á hausinn árið 2019,“ segir í umfjöllun Telegraph.
„Reyndar voru bæði flugfélögin með ótrúlega svipað viðskiptamódel og reyndu að nýta einstaka staðsetningu Íslands á miðju Atlantshafi til að bjóða upp á ódýrt flug til bæði Evrópu og Ameríku,“ skrifar blaðið.
„Þetta hljómar eins og skynsamleg hugmynd, svo hvers vegna gekk hún ekki upp?
Sannleikurinn er sá að lággjaldaflug er alræmdur og erfiður bransi. En það hjálpaði líklega ekki að bæði flugfélögin veðjuðu öllu á einn þátt, nefnilega eftirspurnina eftir ódýru flugi til Íslands yfir höfuð.“
Segir blaðamaðurinn að enginn geti neitað því að eldfjallaeyjan Ísland sé stórfenglegur áfangastaður.
„En ef þú hefur látið alla áhrifavaldana blekkja þig til að halda að hver einasta manneskja á jörðinni hafi verið á Íslandi í sumar, þá óttast ég að gögn úr raunheimum feli í sér raunveruleikatékk.“
Segir blaðið að þótt ferðamönnum hafi fjölgað til muna fyrir 2020 hafi hægst verulega um síðustu ár.
Þá er fullyrt að íslensk ferðamálayfirvöld hafi nýlega sagt að erlendum ferðamönnum hafi fækkað um sex prósent á siðasta ári.
Ekki fæst með neinu móti séð hvaðan blaðið hefur þau gögn.
Samkvæmt tölum Ferðamálastofu fjölgaði ferðamönnum um 2,2% á síðasta ári, miðað við árið 2023. Því er sömuleiðis spáð að þeir verði enn fleiri í ár.
Samkvæmt nýjustu tölum fjölgaði ferðamönnum um 0,49% á milli ára í september og um 10,61% í ágúst. Í júlí nam fjölgunin 9,11% á mili ára.
„Og það var ekki eins og þetta hefði verið í blóma áður: Gestafjöldi árið 2023 var enn lægri en hann var fyrir heimsfaraldurinn,“ segir í umfjöllun blaðsins áður en reynt er að útskýra það sem fullyrt er að sé fækkun ferðamanna á Íslandi.
„Hvað varðar orsök samdráttarins benda sérfræðingar á minnkandi eftirspurn frá tveimur stærstu ferðaþjónustumörkuðum Íslands, þ.e. gestum frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Þessi tvö enskumælandi lönd standa venjulega undir næstum helmingi allra erlendra gesta á Íslandi – en það lítur út fyrir að ferðalangar séu í auknum mæli að fá bakþanka,“ skrifar blaðamaðurinn, sem sjálfur kann að fá bakþanka um þetta nýjasta innlegg sitt.