Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra tekur undir orð seðlabankastjóra um að vaxtalækkun sé nær á sjóndeildarhringnum en vaxtahækkun.
„Það kvað við nýjan tón hjá Seðlabankanum á síðasta vaxtaákvörðunarfundi og greinilegt að það er styttra í vaxtalækkun,“ segir Daði í samtali við mbl.is. Ástæðan sé einfaldlega mat seðlabankans á stöðu hagkerfisins. Þar séu greinileg merki um að þenslan sé að minnka.
„Ég tek þess vegna undir. Ég tel það fullkomlega eðlileg viðbrögð Seðlabankans að gera ráð fyrir því að vaxtalækkunarferlið hefjist á ný fljótlega,“ segir hann. Erfitt sé þó að segja til um hvenær lækkunin verði.
„Seðlabankar eru þannig að þeir eru nú yfirleitt mjög varkárir í yfirlýsingum. Telji þeir ástæðu til þess að gefa einhver skilaboð um að vaxtalækkunarferlið hefjist þá er það fyrr en síðar.“
Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í síðustu viku að halda stýrivöxtum óbreyttum.
Í spurningum greiningaraðila á fundinum og svörum Seðlabankastjóra mátti greina að áhyggjur væru jafnvel af því út frá verðbólgutölum og orðalagi peningastefnunefndar að næsta ákvörðun gæti hallast til hækkunar vaxta frekar en lækkunar.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði nokkuð ákveðið í nýlegu viðtali á mbl.is að allar nýjar fréttir fyrir hagkerfið væru af neikvæðum toga. Meðan ekki komi til ófyrirséðra atburða sem ýti hagkerfinu hraustlega af stað sé lækkun vaxta því nær en hækkun þeirra.
Seðlabankinn muni þó ekki hika við að hækka stýrivexti ef þess þarf.