Ef íbúar í Tjörneshreppi hefðu samþykkt að taka við fólksfækkunarframlagi Jöfnunarsjóðs, upp á um 250 milljónir króna, hefði það jafngilt rúmlega fimm milljónum króna á hvern íbúa í hreppnum.
Hreppurinn hefur hins vegar hafnað framlagi Jöfnunarsjóðs.
Aðalsteinn J. Halldórsson, oddviti í Tjörneshreppi, segir að hreppurinn hafi einu sinni áður fengið 10–12 milljónir króna í fólksfækkunarframlag.
„En ekkert í líkingu við þetta,“ segir Aðalsteinn.
Rúmlega 50 íbúar eru í Tjörneshreppi, sem stendur við hlið Norðurþings. Aðspurður segir hann að umræða hafi farið fram um það hvort rétt væri að taka við framlaginu.
„Auðvitað tókum við allar umræður, en fyrstu viðbrögð allra í hreppsnefnd voru þau að við gætum ekki tekið við þessu,“ segir Aðalsteinn.
Það sem auðveldaði ákvörðunina var, að hans sögn, sú staðreynd að styrkurinn fylgir því sem hann kallar brattri ákvörðun innviðaráðherra um að setja inn ákvæði í sveitarstjórnarlög um lágmarksstærð sveitarfélaga, upp á 250 íbúa. Slík ákvörðunin felur í sér að sveitarfélög með færri en 250 íbúa gætu þurft að sameinast öðrum.
„Við höfðum ekki geð í okkur að taka við framlaginu, að vera samnefnari við þessa aðgerð, að svipta íbúa landsins sínu íbúalýðræði.“
En ertu viss um að þessi mál tengist?
„Við höfum nær óyggjandi heimildir fyrir því. Ég segi þó ekki að við hefðum þegið peningana ef þetta ákvæði væri ekki í frumvarpsdrögunum, en það var punkturinn yfir i-ið. Við ætluðum ekki að vera sveitarfélagið sem yrði dæmi um einhvern fáránleika í framtíðinni, sem ekki mætti endurtaka. Mér skilst að styrkurinn hafi verið þungamiðjan í allri umræðu um þessi mál á nýafstaðinni fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna,“ segir Aðalsteinn.
Hann segir að meðal annars hafi verið rætt, í léttum dúr, um að taka við framlaginu og láta svo nágrannana í Norðurþingi hafa það. „En svo er það víst ólöglegt,“ segir Aðalsteinn kíminn.
Að sögn Aðalsteins var ákvörðunin tekin í gærkvöldi, og enn eigi eftir að láta Jöfnunarsjóð vita formlega að hreppurinn ætli að skila framlaginu.
„Ég hef, satt best að segja, ekki hugmynd um hvernig tekið verður í þetta,“ segir Aðalsteinn.