Niðurstaða Hæstaréttar í vaxtamálinu í dag mun koma böndum á vaxtahækkanir til framtíðar þar sem skýrt er tekið fram að viðmið þurfi að vera skýr og hlutlæg þegar kemur að vaxtabreytingum breytilegra vaxta á neytendalánum. Hins vegar er ljóst að mögulegt fjártjón bankanna vegna málsins verður langtum minna en það hefði getað orðið.
Þetta er á meðal þess sem lögmennirnir Ingvi Hrafn Óskarsson og Grétar Dór Sigurðsson segja í samtali við mbl.is, en þeir voru lögmenn stefnanda í málinu gegn Íslandsbanka.
Í málinu var tekist á um það hvort skilmálar Íslandsbanka og framkvæmd lána með breytilegum vöxtum væru lögmætir. Er þar sérstaklega vísað til þess að skilmálarnir hafi verið óljósir, enda stundum tekið fram að breytingar „taki meðal annars mið af...“ sem og opinberum álögum og/eða öðrum ófyrirséðum kostnaði.“ Í skilmálunum sem nú var deilt um var hins vegar einnig vísað til þess að vextirnir gætu tekið mið af stýrivöxtum Seðlabankans.
Í niðurstöðum Hæstaréttar í dag er komist að því að öll önnur viðmið en stýrivextirnir séu ólögleg þar sem þau uppfylli ekki kröfu í lögum um neytendalán um að vera hlutlæg, skýr, sannprófanleg og aðgengileg.
Stefnendur í málinu höfðu farið fram á að skilmálarnir væru dæmdir ólögmætir og settu fram fjárkröfur með vísan í að vextirnir væru þar með ólögmætir.
Hæstiréttur taldi sem fyrr segir hluta skilmálanna ólögmætan, en sagði að þar sem Íslandsbanki hefði ekki hækkað vextina umfram stýrivexti Seðlabankans, þá væri hann sýknaður af fjárkröfu vegna ofrukkaðra vaxta.
Neytendasamtökin skipulögðu málsókn árið 2021 gegn viðskiptabönkunum þremur og er þetta fyrsta málið þar sem dómur fellur í Hæstarétti. Málin, sem í heild eru fimm og hafa öll fengið áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar, eru þó ólík.
Nokkuð hafði verið fjallað um möguleg áhrif af dóminum í dag og höfðu bankarnir meðal annars vísað til þess að áhrifin gætu hlaupið á tugum milljarða. Ljóst er að áhrifin verða hins vegar miklu minni ef þau verða einhver.
„Þetta hefur augljóslega þá þýðingu að mögulegt fjártjón bankanna er langtum minna en gert var ráð fyrir í þeirra mati,“ segir Ingvi Hrafn Óskarsson, einn lögmanna stefnanda í málinu. Vísar hann þar í tölur sem birtar voru í ársreikningum bankanna.
„Það sýnir sig í þessu máli að fjárkrafa þeirra fellur niður, bankinn er sýknaður, vegna þess að yfir þennan lánstíma var aldrei hækkað meira en sem nemur stýrivöxtum. Þannig að í raun og veru þýðir þetta gagnvart bönkunum að á þessu vaxtahækkunartímabili, að því leyti sem þeir hafa ekki hækkað meira en stýrivexti, þá eru engar fjárkröfur á hendur þeim,“ segir Ingvi jafnframt.
Hann vísar hins vegar til þess að næsta mál fyrir Hæstarétti sé svokallað Landsbankamál og þar sé að finna dæmi um að bankinn hafi ekki lækkað vexti samkvæmt stýrivöxtum. Þar sé því möguleiki á að ofrukkað hafi verið.
„En stóra spurningin eftir þetta á löngu tímabili, þá fylgdu þeir ekki stýrivöxtunum niður á við, það er að segja þeir lækkuðu mun minna og juku markaðsálagið sitt með því að fylgja stýrivöxtunum ekki, t.d. í kjölfar covid-tímans þegar vextir eru orðnir lágir,“ segir Ingvi um Landsbankamálið.
Grétar Dór Sigurðsson, annar lögmaður stefnanda, tekur fram að þetta sé þó ákveðinn sigur þar sem þetta muni hafa fordæmisgildi um breytilega vexti í framtíðinni.
„Þetta kemur engu að síður böndum á vaxtahækkanir til framtíðar litið. Þetta snerist ekki síður um það að koma á jafnvægi milli réttinda og skylda aðila, að bankinn hefði ekki allt í hendi sér með hækkanir,“ segir Grétar. „Nú er búið að koma böndum á það og bankanum ber þá að fylgja hlutlægu viðmiði,“ segir hann og tekur fram að í framtíðinni verði að lýsa á mjög hnitmiðaðan hátt hvernig breyta eigi vöxtum svo það verði fyrirsjáanleiki. Ófyrirsjáanlegur kostnaður og annað slíkt sem ekki sé lýst í skilmálum sé því ólöglegt.
Þeir taka fram að ekki sé um dauðadóm yfir breytilegum vöxtum að ræða, en að nú sé staðfest að viðmiðin þurfi að vera „hlutlæg, skýr, sannprófanleg og aðgengileg“ eins og komið sé inn á í lögunum um neytendalán.