Margir sem lifa fjölástasambandi í laumi

Hlaðvarpsstjórnandinn, lífstílsþjálfinn og lífskúnstnerinn Helgi Jean Claessen áttaði sig eftir margra ára vinnu í andlega ferðalaginu á því að einkvæni ætti ekki við hann. Hann segir vandamál í samböndum oft felast í því að fólk yfirgefi sjálft sig til að þóknast maka sínum.

Í Dagmálum ræðir Helgi upphaf og vegferð síns andlega ferðalags, hugvíkkandi efni, fjölástasambönd og margt fleira en hann þekkir það vel að tölta niður veg hins óhefðbundna.

Átti erfitt með nánd

„Ég átti bara rosalega erfitt með að skuldbinda mig við konu af því að ég átti erfitt með nánd,“ segir Helgi þegar umræða þáttarins tekur stefnu í átt að einkvæni. Þar rifjar hann meðal annars upp fyrrum ástarsamband.

„Ég reyndi að vera einhver útgáfa af sjálfum mér inni í því sambandi sem ég var ekki, og er ekki. Ég hafði rosalega djúpar tengingar og tilfinningar við stelpuna, en á sama tíma tók ég það upp á mig að reyna að fylgja einhverju handriti að því hvernig sambandið á að líta út og faldi parta af mér.“

Farið var yfir víðan völl í Dagmálum.
Farið var yfir víðan völl í Dagmálum. mbl.is/María

„Maður yfirgefur sig“

„Stærsti vandinn er að við yfirgefum sjálf okkur. Þannig þegar það kemur að því að velja á milli hvað ég vil gera og einhver annar, og það er ekki að maður eigi alltaf að gera bara það sem ég vil, en maður yfirgefur sig án þess að segja frá því. Maður yfirgefur sig til þess að þóknast. Maður yfirgefur sig aftur og aftur til að halda í samband. Og það er það sem myndar síðan gremjuna. “

Helgi segir mörg ár af andlegri vinnu hafa leitt sig á þann stað sem hann sé nú á, og að hann hafi jafnframt eytt milljónum í sitt eigið andlega ferðalag.

„Það er besta fjárfestingin,“ segir Helgi og bætir við að hann bjóði nú sjálfur upp á lífstílsprógrömm þar sem fólk fái tækifæri til að fjárfesta í sjálfu sér og finna raunverulega velgengni, sem Helgi segir að sé að verða „ekta.“

„Þú veist alveg þegar þú hittir ekta fólk. Það er munur á því að hitta einhvern sem er ekta eða einhvern sem er inni í skelinni, einhvern sem er að þóknast. Það finnst þegar einhver er að reyna að geðjast þér.“ 

Helgi segist hafa eytt milljónum í sitt andlega ferðalag.
Helgi segist hafa eytt milljónum í sitt andlega ferðalag. mbl.is/María

Hafnaði samningnum

Spurður hvort honum finnist fjölástalífstíll vera þá meira ekta segir Helgi málið snúast um þann „samning“ sem fólki sé réttur og feli það blueprint í sér að fólk byrji í sambandi, giftist og eignist börn. Þeim samningi hafi Helgi hafnað.

„Ég hafnaði líka klassíska 9-17 sambandinu. Það þýðir ekki að ég sé ekki oft að vinna frá 9-17, en ég er bara ekki að gera það á forsendum annarra,“ segir Helgi og bætir við að ákveðinn uppreisnarseggur búi í honum.

„Ég ætla ekki að gera þetta af því að það á að gera það. Ég þarf að gera þetta því ég vil sjálfur gera það. Partur af því var að gangast við því að þetta prógram virkar ekki fyrir mig, að vera með einni konu.“

Er að hitta nokkrar konur

Þá segist hlaðvarpsstjórnandinn vera „að hitta“ nokkrar konur í dag.

„Það eru svo margir þarna úti sem lifa fjölástasambandi í leyndinni. Þeir gera það af því að þeir eru að fela sig, ekki vegna þess að þeir hata manneskjuna sem þeir eru með, heldur af því að samningurinn bauð ekki upp á það.“

Brot úr þætt­in­um má sjá í ­spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan. Áskrif­end­ur geta horft á þátt­inn í heild sinni með því að smella á hlekk­inn hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert