Mikill vöxtur í endurnýtingu snjalltækja

Raftæki í sérstökum gámi í endurvinnslustöð Sorpu þar sem þau …
Raftæki í sérstökum gámi í endurvinnslustöð Sorpu þar sem þau eru flokkuð og send áfram til endurvinnslu eða förgunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í tilefni af Alþjóðlegum degi raftækjaúrgangs, sem er í dag 14. október, vekur ELKO athygli á mikilvægi endurvinnslu og endurnýtingar raftækja og vill með því hvetja fólk til að taka þátt í hringrásarhagkerfi framtíðar. 

ELKO hefur greitt íslenskum viðskiptavinum samtals 20 milljónir króna fyrir notuð snjalltæki á síðasta ári. Fyrirtækið hefur á undanförnum árum séð stöðugan vöxt í endurvinnslu og endurnýtingu raftækja. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Í tilkynningunni kemur fram að alls voru 7.539 snjalltæki send í hringrásarhagkerfi raftækja árið 2024 í samstarfi við endurvinnslufyrirtækið Foxway í Eistlandi.

Að sögn fyrirtækisins jafngildir þetta 43,7% aukningu frá árinu 2023 þegar 5.247 tæki voru keypt af viðskiptavinum. Þá hefur fjöldi tækja sem skilað er inn til endurnýtingar rúmlega þrefaldast frá árinu 2021, þegar þau voru 2.419 talsins.

Óttar Örn Sigurbergsson framkvæmdastjóri ELKO.
Óttar Örn Sigurbergsson framkvæmdastjóri ELKO. Ljósmynd/Aðsend

Hvetja til ábyrgrar endurvinnslu

„Við hvetjum alla til að koma gömlum raftækjum í ábyrga endurvinnslu og það er ekki verra ef finnast tæki sem hægt er að fá greitt fyrir,“ segir Óttar Örn Sigurbergsson, framkvæmdastjóri ELKO.

Fyrirtækið býður greiðslu fyrir snjallsíma, spjaldtölvur, snjallúr, fartölvur og leikjatölvur sem viðskiptavinir skila inn í verslunum fyrirtækisins. Tækin eru metin eftir ástandi og hæsta verðið er greitt fyrir tæki í nothæfu ástandi.

Í verslunum ELKO má einnig finna endurvinnsluskápa þar sem tekið er við smærri raftækjum, rafhlöðum, snúrum og aukahlutum.

Markmiðið er að tryggja að sem flest raftæki fái annað líf eða séu endurunnin á ábyrgan hátt.

Áhersla á gagnsæi og sjálfbærni

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að fyrirtækið hafi á síðustu árum lagt aukna áherslu á sjálfbærni og upplýst val neytenda.

Fyrirtækið var fyrsta raftækjaverslunin á Íslandi til að birta áætlað kolefnisspor allra vara í vefverslun sinni, byggt á losunarstuðlum breska umhverfisráðuneytisins (DEFRA).

Auk þess birtir ELKO verðsögu allra hluta, upplýsingar um framleiðsluland, og aðgengi að varahlutum þar sem það er gefið upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert