Félags- og húsnæðismálaráðuneytið segist ekki hafa heimildir að lögum til að aðhafast frekar í máli Ástráðs Haraldssonar ríkissáttasemjara sem sakaður hefur verið um kynferðislega áreitni.
Hin meinta hegðun sáttasemjarans á að hafa átt sér stað í fræðslu- og skemmtiferð á vegum embættisins í Vestmannaeyjum árið 2022.
Í skriflegu svari frá ráðuneytinu segir að Aldís G. Sigurðardóttir, fyrrverandi starfsmaður Embættis ríkissáttasemjara, hafi greint ráðuneytinu þann 4. júlí sl. frá upplifun sinni af samskiptum hennar og Ástráðs Haraldssonar haustið 2022, þegar hún var starfsmaður embættisins og Ástráður verktaki hjá embættinu.
Í kjölfarið hafi ráðuneytið fundað vegna málsins og mat hvort og þá hvernig því bæri að hafa frekari aðkomu að málinu.
„Á fundi þann 11. september sl. var Aldís G. Sigurðardóttir upplýst um þá niðurstöðu ráðuneytisins að þegar atvikið sem lýst var í erindi hennar hafi átt sér stað hafi ekki verið til staðar ráðningarsamband milli ráðuneytisins og Ástráðs Haraldssonar. Það væri því mat ráðuneytisins að það hefði ekki heimildir að lögum til að aðhafast frekar í málinu,“ segir í svari ráðuneytisins til mbl.is.
Leitað var viðbragða Ástráðs í ágúst sem staðfesti að málið hafi komið upp á sínum tíma en að hann hafi talið að því hefði lokið með afsökunarbeiðni af sinni hálfu.