Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hyggst tilnefna nýjan þingflokksformann Miðflokksins á morgun.
Bergþór Ólason lét af störfum sem þingflokksformaður í lok september.
„Ég geri ráð fyrir að á morgun verði fyrsti þingflokksfundur þar sem allir verða saman frá því að Beggi hætti þingflokksformennskunni og þá mun ég tilnefna einhvern,“ segir Sigmundur í samtali við mbl.is.
Hann segir að í millitíðinni muni hann heyra í þingmönnum flokksins og fá þeirra álit, eins og hefð er fyrir.
„Það er öflugt fólk þarna. Við verðum ekkert í vandræðum þó að það sé mikil eftirsjá að Begga úr þessu hlutverki sem hann var einstaklega fær í en um leið skil ég að þetta er auðvitað mikil binding að vera þingflokksformaður og kannski takmörk fyrir því hvað hægt er að ætlast til þess að menn séu lengi í því.“
