Ógildir alla þætti lánaskilmálans nema einn

Til að koma á jafnvægi milli samningsaðila ógildir Hæstiréttur aðra …
Til að koma á jafnvægi milli samningsaðila ógildir Hæstiréttur aðra þætti skilmálans en tilvísun til stýrivaxta Seðlabankans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tilvísun skilmála um breytilega vexti óverðtryggðs húsnæðisláns hjóna, sem þau slógu hjá Íslandsbanka í janúar 2021, stenst ekki ákvæði laga um fasteignalán til neytenda.

Þetta er einróma niðurstaða Hæstaréttar í máli hjónanna en dómur var kveðinn upp í sal réttarins síðdegis í dag. Málið þykir hafa töluvert fordæmisgildi og var því niðurstöðunnar beðið með nokkurri eftirvæntingu.

Samkvæmt skilmála lánsins áttu breytingar á vöxtum meðal annars að taka mið af „breytingum á fjármögnunarkostnaði (lánskjörum) bankans, rekstrarkostnaði, opinberum álögum og/eða öðrum ófyrirséðum kostnaði, stýrivöxtum Seðlabanka Íslands, breytingum á vísitölu neysluverðs o.s.frv.“

Snýst um 34. grein laganna

Hjónin töldu að skilmálinn uppfyllti ekki þær kröfur um gagnsæi sem felast í 1. málsgrein 34. greinar laga um fasteignalán til neytenda, sem tóku gildi árið 2016.

Sú lagagrein hljóðar svo:

Ef í samningi um fasteignalán er kveðið á um að byggt sé á viðmiðunargengi, vísitölum eða viðmiðunarvöxtum við ákvörðun breytilegra vaxta er lánveitanda aðeins heimilt að notast við viðmiðunargengi, vísitölur eða viðmiðunarvexti sem eru skýrir, aðgengilegir, hlutlægir og unnt að sannreyna, bæði fyrir aðila samnings og Neytendastofu.

Byggist ákvörðun um breytingu á vöxtum ekki á viðmiðunargengi, vísitölum eða viðmiðunarvöxtum skal í samningi um fasteignalán greint frá skilyrðum og málsmeðferð við breytingu á vöxtum.

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna í réttarsal í dag.
Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna í réttarsal í dag. mbl.is/Árni Torfason

Skýrð með hliðsjón af tilskipun ESB

Hjónin töldu enn fremur að skilmálinn væri ósanngjarn í skilningi c-liðs 36. greinar samningalaga frá árinu 1936.

Sögðu þau að skýra bæri umræddar lagagreinar í ljósi Evróputilskipana um neytendavernd á sviði lánasamninga, en undir rekstri málsins í héraði var leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu ákvæða tilskipananna.

Í dómi sínum í dag tekur Hæstiréttur fram að lög um fasteignalán til neytenda hafi verið sett til að leiða í íslensk lög tilskipun Evrópusambandsins um sama málefni.

Umrædd 34. grein verði því skýrð með hliðsjón af samsvarandi grein tilskipunarinnar, jafnvel þótt gerðin hafi ekki verið tekin upp í EES-samninginn fyrr en 1. nóvember 2021.

Enn fremur verði sá hluti 34. greinarinnar, sem byggðist á fyrri tilskipun frá árinu 2008 um lánasamninga fyrir neytendur, skýrður í ljósi hennar.

Vísitalan óvissu háð og fullnægir ekki kröfum

Telur Hæstiréttur að tilvísun skilmálans til stýrivaxta Seðlabankans standist áskilnað lagagreinarinnar. Aftur á móti tekur hann fram að þótt vísitala neysluverðs sé opinber vísitala þá sé vægi hennar í skilmálanum óvissu háð, sem fullnægi ekki kröfum 34. greinarinnar.

Loks telur Hæstiréttur að aðrir þættir skilmálans uppfylli heldur ekki skilyrði lagagreinarinnar, enda vísi þeir til þátta sem neytandi geti ekki sannreynt og hafi veitt Íslandsbanka opna og ófyrirsjáanlega heimild til vaxtabreytinga.

Skilmálinn hafi því raskað til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, hjónunum í óhag í óhag, og teljist ósanngjarn í skilningi samningalaga, með hliðsjón af tilskipun Evrópusambandsins um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum.

Til að koma á jafnvægi milli samningsaðila ógildir Hæstiréttur aðra þætti skilmálans en tilvísun til stýrivaxta Seðlabankans.

Íslandsbanki er þá sýknaður af fjárkröfu hjónanna með vísan til þess að vextir á láni þeirra hafi hækkað minna en stýrivextir Seðlabankans á því tímabili sem ágreiningur málsins tók til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert