Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, segir að niðurstaða Hæstaréttar í vaxtamálinu sé mótsagnakennd og vonbrigði fyrir neytendur. Ef bankarnir hafi oftekið fjármuni eigi að skila því.
„Það er þarna ólöglegur skilmáli en það er bara allt í lagi. Það virðist ekki skipta neinu máli fyrir neytendur að þeir hafi verið bundnir við ólöglega skilmála og það finnst mér ekki í lagi,“ segir hún í samtali við blaðamann mbl.is.
Hún bendir á að bankar, með heilar lögfræðideildir að baki sér, eigi að bera ábyrgð þegar slíkir skilmálar reynast ólöglegir.
„Neytendur eiga ekki að þurfa að gjalda fyrir það. Þeir eiga að fá bætt tjón sitt ef skilmálar hafa verið ólöglegir, en það er ekki að sjá í þessum dómi, því miður,“ segir Ásthildur Lóa.
Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í svonefndu Vaxtamáli, þar sem deilt var um lögmæti vaxtaákvæða í lánssamningum við Íslandsbanka. Um var að ræða tugmilljarða hagsmuni bæði bankanna og neytenda.
Niðurstaða dómsins var sú að hluti skilmálanna, sem vörðuðu viðmið annarra vaxta en stýrivaxta Seðlabankans, voru dæmd ólögleg. Íslandsbanki var hins vegar sýknaður af öðrum kröfum.
Þingmaðurinn segir að málið sé dæmi um baráttu hins almenna borgara gegn kerfinu.
„Þetta er bara Davíð og Golíat í hnotskurn,“ segir hún og bendir á að bankarnir hafi sjálfir gefið það út að hugsanleg endurgreiðsla gæti kostað þá allt að 75 milljarða króna.
„En ef það kostar þá 75 milljarða að endurgreiða, þýðir það að þeir hafa oftekið 75 milljarða. Og ef maður oftekur eitthvað þá á maður að skila því til baka sama hvort maður er banki eða einstaklingur.“
Ásthildur Lóa bendir á að neytendur hafi ítrekað tapað sambærilegum málum fyrir dómstólum þrátt fyrir að hafa sterkar stoðir fyrir sínum málflutningi. Þá sé aðstöðumunurinn mikill enda kosti mikið að fara í dómsmál. „Fólk fer ekki í svona mál nema það sé 150% visst um að hafa rétt fyrir sér, kostnaðurinn er einfaldlega of mikill.“
Þótt Hæstiréttur hafi nú staðfest að skilmálarnir standist ekki lög segir Ásthildur Lóa að neytendur sitji eftir.
„Það má kannski kalla þetta fullnaðarsigur ef markmiðið var að breyta skilmálum til framtíðar en fyrir fólkið sem hefur þegar greitt háa vexti vegna ólöglegra skilmála er þetta ekki sigur,“ segir hún.
Hún telur brýnt að tryggt verði að neytendur fái bætur.
„Það eru gríðarlegir hagsmunir undir. Þeir sem hafa greitt fyrir þessa ólöglegu skilmála, jafnvel á dýru verði, fá ekkert bætt. Bankarnir fá einfaldlega að halda peningunum og ég er ekki sátt við það.“