Ómar laut í lægra haldi í héraðsdómi

Ómar R. Valdimarsson lögmaður. Myndin er úr safni.
Ómar R. Valdimarsson lögmaður. Myndin er úr safni. mbl.is/Eyþór

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað konu af kröfu Ómars R. Valdimarssonar lögmanns í máli sem snýr að endurgjaldi vegna lögmannsstarfa hans fyrir hana árið 2022.

Ómar hafði gert þær dómkröfur að felldur yrði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna sem hafði komist að þeirri niðurstöðu að honum bæri að endurgreiða konunni rúmar tvær milljónir króna eftir að hafa unnið mál fyrir hana.

Héraðsdómur Reykjaness birti dóminn 8. október.

Greiddi Ómari yfir þrjár milljónir króna

Forsaga málsins er sú að Ómar tók að sér hagsmunagæslu fyrir konuna í ágreiningsmáli sem laut að forsjá barns hennar, umgengni og meðlagsgreiðslum í ágúst 2022. Segir í dómnum að í umboði Ómars hafi staðið hvað snertir þóknun að greiðslan færi samkvæmt gjaldskrá Esju Legal ehf. á hverjum tíma nema samið væri um annað. Þó liggi ekki fyrir að gjaldskráin hafi verið kynnt konunni við undirritun umboðsins.

Liggur fyrir að konan hafi í upphafi greitt honum 250.000 krónur. Nokkrum mánuðum síðar fór Ómar fram á greiðslu 346.219 króna vegna vinnu lögmannsstofu hans við málið, að því er fram kemur í dómnum.

Þá setti hann sig í samband við konuna 21. júní 2023 og krafðist þess að hún greiddi honum eina milljón króna fyrir hádegi næsta dag, að öðrum kosti myndi hann láta af hagsmunagæslu. Hann hætti síðar í málinu og gaf út reikning að fjárhæð 2.723.133 krónur, sem konan greiddi 28. júní sama ár. Samtals hafði hún þá greitt honum 3.319.352 krónur með virðisaukaskatti.

Krafðist endurgreiðslu

Í dómnum kemur fram að óumdeilt sé að Ómar hafi annast flutning ágreiningsmáls vegna bráðabirgðakröfu konunnar, auk þess sem hann hafi sótt um gjafsóknarleyfi fyrir hana, sem henni var veitt. Hann hafi þó hætt hagsmunagæslu í kjölfarið að hennar beiðni og lauk málinu síðar með sátt milli konunnar og barnsföður hennar eftir að hún réði sér annan lögmann.

Í janúar 2024 lagði konan fram kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna vegna áskilins endurgjalds Ómars og krafðist endurgreiðslu. Í mars sama ár sendi hún einnig annað erindi til nefndarinnar þar sem kvartað var yfir samskiptum við Ómar en segir í dómnum að hann hafi haft samband við vinkonu konunnar sem og föður hennar þegar illa gekk að ná sambandi við hana.

Gert að endurgreiða yfir tvær milljónir

Í úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna frá 3. desember 2024 var kröfu Ómars um frávísun málsins hafnað og ákveðið að endurgjald hans skyldi lækkað í 2.480.000 krónur, auk þess sem honum var gert að endurgreiða konunni 2.173.821 krónu.

Í niðurstöðu nefndarinnar segir t.a.m. að konunni hefði verið veitt gjafsóknarleyfi vegna málsins og að samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur skyldi gjafsóknarkostnaður greiðast úr ríkissjóði, þar með talin þóknun Ómars, að fjárhæð 1.200.000 krónur auk virðisaukaskatts.

Þá væri innheimta gjafsóknarkostnaðar á forræði Ómars sjálfs og af því leiði að honum bæri að endurgreiða konunni fjárhæð málskostnaðar úr gjafsókn, sem hún hafði þegar greitt honum.

Braut gegn siðareglum lögmanna

Sömuleiðis segir í niðurstöðunni að Ómar skyldi sæta áminningu vegna þeirrar háttsemi að setja sig sjálfur, eða með atbeina starfsmanna sinna, í samband við sameiginlega kunningjakonu hans og konunnar sem og föður konunnar vegna málsins án sérstaks tilefnis. Taldi nefndin það vera brot á siðareglum lögmanna.

Þá kemur fram í dómnum að Ómar hefði endurgreitt konunni að fullu gjafsóknarkostnað málsins sem hann hafði þegar fengið greiddan úr ríkissjóði, alls 1.584.699 krónur.

Sagði málið hafa verið umfangsmikið

Ómar hélt því fram fyrir dómi að málið sem hann vann fyrir konuna hefði verið umfangsmikið og réttlætt þá þóknun sem hann krafðist. Hann sagði að vinnan hefði falið í sér gerð stefnu, umsókn um gjafsókn, þátttöku í þinghöldum og mikla samskipta- og gagnaumsýslu, þar á meðal hundruð tölvupósta, símtöl og skjöl frá skjólstæðingnum.

Hann taldi að gjaldskrá hans hefði verið kynnt og samþykkt og að hann hefði aðeins haft samband við föður og vinkonu konunnar í góðri trú þegar erfitt reyndist að ná í hana en þá var hann ekki lengur lögmaður hennar. Sagðist hann hafa reynt hvað sem hann gat til að ná sáttum við konuna um lúkningu málsins með það að markmiði að leiðrétta hlut hennar.

Eins og fyrr segir gerði Ómar þær dómkröfur að felldur yrði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndarinnar en til vara var þess krafist að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi hvað snertir þá áminningu sem honum var gert að sæta. Þá krafðist hann einnig málskostnaðar frá konunni sem krafðist sýknu.

Var það niðurstaða héraðsdóms að konan yrði sýkn af kröfum Ómars. Gjafsóknarkostnaður konunnar myndi greiðast úr ríkissjóði, þar með talin 1.600.000 króna málflutningsþóknun lögmanns hennar. Þá á Ómar að greiða 1.600.000 í ríkissjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert