Pálmi andlit áfengisverslunar: „Ég er ekki morðingi“

Pálmi Gestsson leikur í auglýsingu netverslunar með áfengi.
Pálmi Gestsson leikur í auglýsingu netverslunar með áfengi. Skjáskot

Stórleikarinn Pálmi Gestsson er andlit netáfengisverslunarinnar Smáríkisins í nýrri, leikinni auglýsingu frá fyrirtækinu. Auglýsingin er eins konar stuttmynd þar sem áfengi er hvergi sýnt, enda ólöglegt að auglýsa áfengi hér á landi.

Hins vegar er nafn Smáríkisins áberandi í myndinni og allir sem vilja vita, vita til hvers er vísað.

Vissi að þetta gæti orkað tvímælis 

Aðspurður segir Pálmi að það hafi vissulega flogið í gegnum huga hans að það gæti orkað tvímælis að auglýsa áfengi óbeint með þessum hætti.

„Jú, jú, ég hugsaði það alveg, en svo er ég leikari og hef leikið svolítið af morðingjum í sjónvarpsþáttum án þess að vera það endilega. Eftir ákveðna umhugsun komst ég að þeirri niðurstöðu að ég væri ekki að taka afstöðu gegn trú minni. Því ákvað ég að líta á þetta eins og hverja aðra vinnu,“ segir Pálmi.

Bindindismaður

Pálmi er sjálfur bindindismaður en segist „svo sem“ hafa sínar skoðanir á aðgengismálum áfengis.

„Manni finnst þetta náttúrlega vera tímaskekkja, þessi einokun sem er í áfengismálum. Ég held að það sé ekkert hægt að koma í veg fyrir að ákveðið frelsi verði í þessum málum, eins og öðru,“ segir Pálmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert