Play-mál í rénun hjá Neytendasamtökunum

Breki Karlsson segir enn koma nokkur mál á dag á …
Breki Karlsson segir enn koma nokkur mál á dag á borð Neytendasamtakanna sem snúa að ferðaskrifstofum sem náðu ekki að uppfylla flugferðir viðskiptavina sinna. Samsett mynd mbl.is/Eggert/Sigurður Bogi

Enn berast nokkur mál á dag til Neytendasamtakanna vegna falls flugfélagsins Play, en samkvæmt Breka Karlssyni, formanni samtakanna, eru öldurnar þó farnar að lægja.

Fjölmargir höfðu samband við Neytendasamtökin þegar Play hætti starfsemi í lok september.

Ferðaskrifstofur ekki náð að uppfylla flugferðir

Í samtali við mbl.is segir Breki að símtölum vegna flugfélagsins fari nú fækkandi, þó að enn berist mál frá neytendum ferðaskrifstofa sem höfðu keypt pakkaferðir.

Vísar hann þar til þeirrar réttarstöðu ferðamanna að ef þeir keyptu pakkaferð í gegnum ferðaskrifstofu þar sem flug með Play var innifalið skyldu þeir snúa sér að viðkomandi ferðaskrifstofu þar sem það væri á hennar ábyrgð að koma ferðamönnum á áfangastað eða heim aftur, eða þá endurgreiða ferðina hefði enn ekki af henni orðið.

Segir Breki að málin snúi að því að sumar ferðaskrifstofur hafi ekki náð að uppfylla flugferðir og ferðalangar því þurft að borga flugferðirnar úr eigin vasa.

„Við höfum fengið svoleiðis mál en þau hafa svona flest verið leyst á einn eða annan hátt,“ segir Breki og bætir við að um nokkur mál á dag sé að ræða.

„En öldurnar eru að lægja. Þetta er í rénun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert