Ruglaði saman nöfnum og dæmdur til miskabóta

Reynir Traustason er fyrrverandi ritstjóri Mannlífs.
Reynir Traustason er fyrrverandi ritstjóri Mannlífs. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Reyni Traustason, fyrrverandi ritstjóra Mannlífs, til að greiða Ingva Hrafni Hálfdánssyni 350 þúsund krónur í miskabætur vegna ærumeiðandi umfjöllunar á vef Mannlífs 8. júlí 2021.

Þá var Reyni og útgáfufélagi Mannlífs á þeim tíma, Sólartúni ehf., gert að greiða Ingva Hrafni óskiptan málskostnað, eina milljón króna.

Rangur Ingvi Hrafn 

Í frétt Mannlífs var Ingvi Hrafn Hálfdánsson ranglega nafngreindur sem grunaður um hnífstunguárás í miðborg Reykjavíkur. Árásarmaðurinn í málinu reyndist vera maður að nafni Ingvi Hrafn Tómasson, sem síðar var dæmdur fyrir verknaðinn.

Reynir Traustason sagði fyrir dómi að um mistök hefði verið að ræða. Starfsmaður Mannlífs hafi verið staddur nærri vettvangi árásarinnar og ranglega dregið þá ályktun að um Ingva Hrafn Hálfdánsson væri að ræða. Fréttin hafi verið skrifuð og birt tveimur dögum síðar án frekari staðfestingar.

Dómurinn taldi að þessi vinnubrögð hefðu ekki uppfyllt lágmarkskröfur um staðreyndakönnun og væru til marks um gróft gáleysi. Ritstjóri og útgefandi beri ábyrgð samkvæmt fjölmiðlalögum.

Ummæli dæmd dauð og ómerk

Þrjú tiltekin ummæli í fréttinni voru dæmd dauð og ómerk, þar sem ranglega var fullyrt að Ingvi Hrafn hefði verið handtekinn og grunaður um að hafa stungið mann á veitingastað í miðborginni.

Í fréttinni birtist einnig mynd af honum með nafngreiningu í myndatexta.

Dómurinn segir að staðhæfingarnar hafi verið rangar og vegið alvarlega að æru stefnanda.
„Stefnandi á ekki að þurfa að þola það að vera sakaður opinberlega um alvarlegt refsivert brot án þess að nokkur stoð sé fyrir því,“ segir meðal annars í forsendum dómsins.

Afsökunarbeiðni ekki sönnuð

Reynir hélt því fram að fréttin hefði verið fjarlægð fljótt og að boðið hefði verið að birta afsökunarbeiðni, en dómurinn taldi það ósannað. Leiðrétting sem birtist síðar þótti ekki nægjanleg til að draga úr ábyrgð fréttaflutningsins. 

Ingvi Hrafn krafðist 2,5 milljóna króna í miskabætur, en dómurinn taldi hæfilegt að þær næmu 350 þúsund krónum með dráttarvöxtum frá 18. mars 2025. Við ákvörðun fjárhæðarinnar var litið til þess að fréttin hafi aðeins verið í birtingu í stuttan tíma, en þó valdið tjóni og andlegu álagi.

Kröfum um birtingu dóms hafnað

Dómurinn hafnaði kröfu Ingva Hrafns um að dómurinn yrði birtur í dagblöðum eða á vef Mannlífs.

Ástæða þess var sú að refsikrafa vegna ærumeiðinga var fyrnd og útgáfufélagið hefur ekki lengur forræði yfir vefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert