„Sér fyrir endann á slökkvistarfi“

Slökkviliðsmenn að störfum í morgun.
Slökkviliðsmenn að störfum í morgun. mbl.is/Sigurður Ægisson

„Við erum búnir að slökkva í öllum reyk en nú er verið að tryggja erfiða staði í þakinu þar sem þar gætu leynst glæður eða hreiður.“

Þetta segir Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar, í samtali við mbl.is en töluverður eldur braust út í Primex-verksmiðjunni á Siglufirði um klukkan 20 í gærkvöld.

Húsnæðið er mikið skemmt eftir eldsvoðann í gærkvöld.
Húsnæðið er mikið skemmt eftir eldsvoðann í gærkvöld. mbl.is/Sigurður Ægisson

Jóhann er búinn að vera á vaktinni frá því í gærkvöld og segir hann að það sjái fyrir endann á slökkvistarfi en um 40 manns voru við slökkvistarf í nótt.

„Við segjum aldrei að slökkvistarfi sé lokið fyrr en við erum algjörlega búnir að fullvissa okkur um að það séu hvergi glæður sem geti tekið sig upp. Við erum líka aðeins smeykir ef veðurspáin gengur eftir en það á að bæta í vindinn í dag,“ segir hann.

Jóhann segir nauðsynlegt að tryggja svæðið þar sem er fullt af lausum þakplötum og mun brunavakt vera við húsið í dag.

Húsnæðið er mikið skemmt að sögn Jóhanns en þar til húsa er Primex-verksmiðjan sem er líftæknifyrirtæki sem framleiðir meðal annars snyrtivörur og sáravörur undir merkinu ChitoCare.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert