Snorri Másson, varaformaður Miðflokksins, mun í vikunni leggja fram þingmál um að Ríkisútvarpið leggi niður alla almenna starfsemi á öðrum tungumálum en íslensku.
Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi fyrr í dag, þar sem Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, áminnti þingmenn fyrir frammíköll.
Snorri beindi fyrirspurn sinni til Loga Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, og sagði að ein af neikvæðum afleiðingum opinnar innflytjendastefnu síðustu ára væri að íslensk tunga þyrfti að hörfa á sífellt fleiri sviðum.
Snorri benti á að nú fjölgaði innflytjendum mun hraðar en Íslendingum og þeirri þróun þyrfti að snúa við með öllum tiltækum ráðum.
Á meðan þyrfti að standa vörð um íslenska tungu.
„Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að beita fullum þunga ríkisvaldsins til þess að senda skýr skilaboð um að íslenska sé og verði eina almenna og viðurkennda samskiptamálið í okkar þjóðfélagi,“ sagði Snorri.
„Ríkisútvarpið heldur núna út mikilli starfsemi á ensku og pólsku þrátt fyrir að ekkert standi um það í lögum samkvæmt mínum skilningi. Kannski var góð hugsun á bak við það upphaflega, líklega, en hún var misráðin og ég tel að við ættum að endurskoða þetta.“
Snorri sagði að fjöldi annarra útlenskumælandi miðla miðli upplýsingum um íslenskt samfélag. Þýðingarvélar væru einnig orðnar býsna góðar, en að hans mati væru skilaboðin sem RÚV sendi röng.
„Nú koma þar ofan á fréttir um áframhaldandi óskiljanlegan hallarekstur Ríkisútvarpsins, sem heldur áfram, og við verðum að bregðast við honum með eðlilegum aðhaldsaðgerðum en ekki með því að hafa bara opinn krana með meira fjármagni. Ég mun því í þessari viku leggja fram þingmál um að Ríkisútvarpið leggi niður alla almenna starfsemi á öðrum tungumálum en íslensku,“ sagði Snorri.
Bætti hann við að afmarkaðar undantekningar, svo sem í almannavarnaskyni, mætti gera ef svo bæri undir. Almennt ætti þó útlenskumælandi umfjöllun innan RÚV að falla brott.
„Þetta er að mínu mati táknrænt. Þetta sendir rétt skilaboð og þetta sparar peninga, og því leikur mér forvitni á að vita hvað hæstvirtum menningarmálaráðherra finnst um þessa hugmynd. Styður hann þessa tillögu eða telur hann hana a.m.k. skref í rétta átt?“
Logi Einarsson ráðherra svaraði og sagði að verkefni væri þegar í gangi innan ríkisstjórnarinnar um að RÚV myndi huga betur að þeim fjármunum sem stofnuninni eru veittir.
Hann kvaðst þó ekki viss um að tillaga Snorra væri sú rétta og nefndi að íslenskt samfélag hefði um langt skeið reitt sig á erlent vinnuafl.
Hér byggju tugþúsundir einstaklinga, sumir til lengri tíma og aðrir skemur, sem væru hluti af samfélaginu og hefðu lagt sitt af mörkum til hagvaxtar.
Þeir einstaklingar ættu sín réttindi, og sagði Logi að almannaútvarp eins og RÚV brygðist skyldum sínum ef lágmarksskilaboðum væri ekki komið á framfæri og ekki brugðist að einhverju leyti við þörfum þess hóps.
„Ég er hins vegar tilbúinn til þess að setjast niður með háttvirtum þingmönnum og hverjum öðrum ykkar sem vilja ræða hvernig við eigum að standa vörð um íslenskuna.“
Því næst tók Snorri aftur til máls en fór þá yfir í næstu fyrirspurn. Hann vísaði til orða Gísla Marteins Baldurssonar, dagskrárgerðarmanns á RÚV, sem Snorri sagði hafa skrifað að ríkisstofnunin hefði aldrei verið mikilvægari en nú „á tímum upplýsingaóreiðu og uppgangs þjóðernisíhaldssinnaðra lýðskrumara“.
„Þetta er stefnumarkandi yfirlýsing sem ég hef óskað eftir því að hæstvirtur ráðherra bregðist við, ekki við Gísla Marteini í sjálfu sér, heldur hvort hæstvirtur ráðherra sé sammála því að Ríkisútvarpið gegni því hlutverki í okkar samfélagi að stemma stigu við tilteknum pólitískum hugmyndum.“
Logi svaraði að hlutverk RÚV væri að fylgja hlutlægum og málefnalegum leikreglum og varpa ljósi á alls kyns viðhorf.
„Það skiptir máli að það sé gert, og mér finnst svona almennt að Ríkisútvarpið geri það.
Hins vegar er alveg sjálfsagt að hvert og eitt okkar hafi skoðun á því hvort það er að rækja það hlutverk eða ekki. Nei, mér finnst að Ríkisútvarpið eigi ekki að stunda innrætingu ef það er það sem háttvirtur þingmaður er að vísa í.
En nú er það þannig hins vegar að ráðherra blandar sér ekki beint inn í dagskrárgerð Ríkisútvarpsins. Þó svo að Ríkisútvarpið heyri undir ráðuneyti þá er útvarpsráð t.d. skipað af Alþingi...,“ sagði Logi áður en frammíköll fóru að berast úr salnum, með þeim afleiðingum að Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti sló fast í bjöllu sína og tók til máls.
„Þingmaður er með orðið, og hæstvirtur ráðherra, og ég bið þingmenn um að gefa honum hljóð svo hann geti svarað. Það eru almennar reglur í þessum þingsal og eftir þeim eiga allir að fara,“ sagði Þórunn.
Brýndi hún fyrir þingmönnum að í óundirbúnum fyrirspurnatímum hefðu þingmenn tvisvar sinnum tvær mínútur til að koma máli sínu á framfæri. Það væru reglurnar og þeim bæri að fylgja.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði athugasemd Þórunnar sanngjarna þegar hann tók næst til máls undir liðnum fundarstjórn forseta, en hvatti þó forsetann til að minna ráðherrana á að hlutverk þeirra í óundirbúnum fyrirspurnatímum væri að svara spurningum.
„Ef þessi liður í þingstörfunum á eingöngu að snúast um það að ráðherrar hafi tækifæri til að koma hér upp og ræða eitthvað allt annað en þeir eru spurðir um og viljandi sleppa því að svara spurningunni, þá er hann til lítils gagns.“