Slökkvistarfi á Siglufirði lokið

Erfitt er að meta tjónið sem stendur.
Erfitt er að meta tjónið sem stendur. mbl.is/Sigurður Ægisson

Slökkvistarfi er lokið við Primex-verksmiðjuna á Siglufirði eftir að eldur braust þar út um klukkan 20 í gær.

Þetta segir Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar, í samtali við mbl.is.

Þegar blaðamaður náði tali af Jóhanni voru slökkviliðsmenn að yfirgefa vettvang. Lögreglan á Norðurlandi eystra fær vettvanginn til rannsóknar á næstu klukkutímum.

Slökkviliðinu barst tilkynning um eldsvoðann klukkan 19:50 í gær. Eldurinn var bundinn við þak húsnæðisins. Aðkoman að eldinum reyndist erfið auk þess sem miklar vindhviður gerðu slökkvistarf torveldara.

Primex-verksmiðjan á Siglufirði í morgun.
Primex-verksmiðjan á Siglufirði í morgun. mbl.is/Sigurður Ægisson

Mikið skemmt

Jóhann segir að dagurinn hafi að mestu farið í að slökkva glæður og tryggja öryggi á svæðinu.

Húsnæðið er mikið skemmt en þar til húsa er Primex-verksmiðjan sem er líftæknifyrirtæki sem framleiðir m.a. snyrtivörur og sáravörur undir merkinu ChitoCare.

mbl.is ræddi við Vigfús Rúnarsson, forstjóra Primex, fyrr í dag. Þá hafði starfsfólk Primex ekki fengið aðgang að verksmiðju fyrirtækisins og gat hann því ekki metið tjónið eða hvaða áhrif eldvoðinn kynni að hafa á starfsemi fyrirtækisins.

Slökkviliðsmenn að störfum í morgun.
Slökkviliðsmenn að störfum í morgun. mbl.is/Sigurður Ægisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert