Eldur kviknaði í fatahrúgu á Nytjamarkaðinum á Selfossi rétt fyrir klukkan 12 í dag.
Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, segir í samtali við mbl.is að slökkviliðinu hafi borist boð eina mínútu fyrir tólf um eld í fatahrúgu inni í miðri verslun markaðarins.
„Við sendum slökkviliðsbíla á staðinn og þegar komið var á vettvang hafði starfsfólki tekist að slökkva eldinn. Það hafði snör viðbrögð og notkun á slökkvitæki bjargaði því að ekki fór verr,“ segir Pétur en slökkviliðið reykræsti húsnæðið og gekk úr skugga um að engin glóð væri til staðar með hitamyndavélum.
Pétur segir að vinnu slökkviliðsins á staðnum sé lokið. Honum er ekki kunnugt um að neinn hafi slasast og ekki sé hægt að segja til um eldsupptökin að svo stöddu. Það sé lögreglunnar að rannsaka þau.
