Íslandsstofa hefur ekki brugðist við fréttaflutningi breskra miðla þar sem því er ranglega haldið fram að hrun hafi orðið í straumi ferðamanna til landsins. Áfram verður fylgst vel með umfjöllun um málið og metið hvort tilefni sé til að bregðast við.
Þetta segir Oddný Arnarsdóttir, fagstjóri ferðamála hjá Íslandsstofu, í samtali við mbl.is.
Oddný segir að Íslandsstofa vinni náið með almannatengslaskrifstofu í Bretlandi sem greini með þeim fjölmiðlaumfjöllun um málið.
„Við höfum verið að fylgjast með út frá þessari umfjöllun hvort það sé að koma meira fram. Við höfum ekki séð aukinn fjölda, aðeins þrír miðlar hafa fjallað um þetta mál. Við teljum ólíklegt að þetta breiðist eitthvað frekar út,“ segir Oddný.
mbl.is fjallaði í dag um rangar fullyrðingar breska dagblaðsins Telegraph um íslenska ferðaþjónustu þar sem segir að svokölluð ferðamannabóla á Íslandi sé sprungin.
Heldur miðillinn því fram að ferðamönnum hafi fækkað um 6% á síðasta ári þrátt fyrir að engin gögn sýni fram á það.
Breska dagblaðið Daily Mail hefur einnig lagt út af þessum fréttaflutningi en miðillinn rekur ástæðuna m.a. til gjaldþrots flugfélagsins Play í síðasta mánuði.
Auk þessara tveggja miðla hefur MSN News endurbirt umfjöllun Daily Mail.
Aðspurð segir Oddný að Íslandsstofa hafi ekki sett sig í beint samband við umrædda miðla vegna þessara rangfærslna.
Hún segir að í næstu viku sé Sarah Marshall, blaðamaður frá Telegraph, væntanleg til landsins þar sem tækifæri gefst til að koma á framfæri réttum upplýsingum um aðsókn ferðamanna til landsins.
Íslandsstofa fer í næstu viku af stað með nýja auglýsingaherferð sem miðar að Bretlandsmarkaði. Auk þess sem stór hópur ferðaþjónustunnar á Íslandi heldur til Bretlands í nóvember að sækja World Travel Market-ráðstefnuna. Oddný segir að þar muni einnig gefast tækifæri til að koma réttum upplýsingum um stöðu ferðamála á Íslandi.
„Telegraph er vissulega þekkt fyrir að fjalla um ferðaþjónustutengd efni og sveiflur en auðvitað þarf það að vera á réttum forsendum og þess vegna munum við bregðast við ef við teljum að þess þurfi, eins og staðan er núna er það kannski ekki komið á þann stað,“ segir Oddný.
„Við förum ekki í blaðið sjálft en tryggjum umfjöllun á öðrum forsendum þar sem við erum að koma sögum um íslenska ferðaþjónustu sterkt á framfæri,“ segir Oddný.