Þurfa að ákveða vexti núna fyrir næstu 30-40 árin

Jón Guðni Ómarsson bankastjóri Íslandsbanka
Jón Guðni Ómarsson bankastjóri Íslandsbanka mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, segir niðurstöðu Hæstaréttar Íslands um að forsendur breytilegra vaxta séu óskýrar gera það að verkum að lánveitendur þurfi að huga að því hvernig lánveitingum verði háttað til framtíðar.

Eiginlegar vaxtaákvarðanir séu nú úr sögunni og verði lánveitendum gert að fylgja hækkunum og lækkunum Seðlabanka til framtíðar.

Bankinn hafði gert ráð fyrir því að „tapa“ 20 milljörðum króna ef dómsmálið hefði fallið honum alfarið í óhag.

Niðurstaða Hæstaréttar varð hins vegar sú að þótt forsendur lánaskilmála um breytilega vexti væru óskýrar, væri engu að síður ekki ástæða til að umreikna vexti afturvirkt nema að litlu leyti. Tap bankans er því minniháttar.

Léttir

Spurður segir Jón Guðni niðurstöðuna létti:

„Þetta er léttir og það er óvissa sem nú er frá. Gott er að þetta sé komið á hreint. Á sama tíma hefðum við viljað að dómurinn yrði í línu við niðurstöðu héraðsdóms,“ segir Jón Guðni.

Hefur ekki áhrif á kjörin

Í ljósi dómsins eru 20 milljarðar sem fara ekki út úr rekstrinum. Mun það hafa einhver áhrif á kjör ykkar á markaði?

„Þessir 20 milljarðar voru út frá verstu sviðsmyndinni og ekkert sem hafði verið tekið út úr rekstrinum á neinn hátt. Kjörin munu því frekar ráðast af framboði á þessum markaði. Við þurfum að skoða hvaða áhrif þetta hefur á húsnæðislán til framtíðar. Þetta þýðir að við erum að veita 30–40 ára lán en þurfum að festa margínuna (vaxtamuninn), og það getur verið snúið þar sem margt getur breyst í rekstrarumhverfinu á svo löngum tíma,“ segir Jón Guðni.

Ekki hægt að útiloka dýrari lántöku

Gæti þetta leitt til þess að dýrara verði fyrir neytendur að taka lán?

„Það er ekki hægt að útiloka það, en lánveitendur þurfa almennt að horfa til þeirrar óvissu sem þetta felur í sér. Hins vegar er of snemmt að segja til um hvort þetta muni hafa mikil áhrif í þá veru,“ segir Jón Guðni.

Að sögn Jóns Guðna mun nú taka við hjá bankanum að fara yfir þúsundir lána og kanna hvort þau hafi verið rétt reiknuð miðað við niðurstöðu Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert