Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í óformlegu tali við Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra að Bandaríkin myndu standa áfram við sínar skuldbindingar varðandi varnarmál Íslands.
Þetta segir forsætisráðherra í samtali við mbl.is, spurð hvort hún hafi fengið staðfestingu frá Bandaríkjaforseta um að Bandaríkin muni vernda Ísland ef til þess kemur.
„Við höfum ekki átt formlegan tvíhliða fund en í bæði skiptin sem ég hef hitt hann þá hefur hann að fyrra bragði haft orð á því að Bandaríkin muni áfram standa við skuldbindingar sínar hér á landi,“ segir Kristrún.
Sem áður segir hefur Kristrún ekki átt tvíhliða fund með Bandaríkjaforseta en að sögn forsætisráðherra hefur utanríkisráðuneytið lagt inn beiðni um slíkan fund.
Sjálf hefur Kristrún hitt Trump tvisvar. Fyrst í Haag í tengslum við NATO-fundinn sem þar var haldinn í sumar og svo í kokteilboði í New York, þar sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna kom saman nýlega.
„Í bæði skiptin hef ég fengið frekar jákvæð viðbrögð gagnvart Íslandi. Hann er mjög meðvitaður um stöðu varnarmála hér á landi, hann er meðvitaður um varnarsamninginn og hefur haft orð á því í bæði skiptin að þau muni standa við sínar skuldbindingar og gert það að fyrra bragði,“ segir Kristrún um samskiptin við Bandaríkjaforseta.
Þá hafi hún rætt stuttlega við hann um áhuga Íslands á að sjá auknar fjárfestingar af hálfu Bandaríkjamanna. Stór hluti af þeirri atvinnuuppbyggingu sem gæti átt sér stað á Íslandi, í nýsköpun og fleiru, gæti átt grunn í bandarískum fjárfestingum.
„Þetta er auðvitað það sem öll lönd eru að eiga samtöl við bæði Bandaríkin og önnur lönd um.“
Kristrún segist hafa nýtt hvert tækifæri til að ræða aukna samvinnu landanna við Atlantshafið þegar kemur að fjárfestingum á svæðinu, ekki bara varnarmálum.
„Vegna þess að Íslendingar þurfa að hafa skoðun á sínum bakgarði og við getum ekki látið hlutina bara þróast einhvern veginn, án okkar aðkomu,“ segir hún.
Þetta hafi hún rætt við forsætisráðherra Kanada, forsætisráðherra Noregs, Grænlendinga, Færeyinga, Dani og haft orð á þessu við Bandaríkjaforseta.