Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við þaulskipulögðum svikaárásum þar sem svikahrappar nota fölsk íslensk fyrirtækjalén til þess að reyna að hafa fé út úr fólki. Hefur lögreglan upplýsingar um a.m.k. þrjú fölsk lén sem notuð hafa verið.
Í tilkynningu frá lögreglunni segir að hún hafi þessi mál nú til rannsóknar. Útlit sé fyrir að erlendir aðilar séu að skrá íslensk lén með heitum sem líkjast íslenskum fyrirtækjaheitum. Tilgangurinn virðist vera að svíkja erlenda birgja þessara fyrirtækja og/eða undirbúa svokölluð forstjórasvik.
Þeim þremur lénum sem lögreglan hefur komist á snoðir um hefur verið lokað af ISNIC, skráningastofu .is veffanga á Íslandi.
Fyrirtækin sem eiga í hlut vita af málinu og hafa öryggisteymi þeirra gripið til ráðstafana til þess að koma í veg fyrir tjón hjá fyrirtækjunum og viðskiptavinum þeirra.
„Talið er að undirbúningur þessara svikaárása hafi átt sér talsverðan aðdraganda og ekki er útilokað að fleiri fyrirtæki séu þarna undir. Lögreglan hvetur því öryggisteymi og upplýsingadeildir fyrirtækja til að vera á varðbergi,“ segir í tilkynningunni.
Lögreglan hefur notið aðstoðar frá netöryggisfyrirtækinu Ambögu, sem fyrst tilkynnti málið til lögreglu.
Hafir þú eða teljir þig eða fyrirtæki þitt hafa orðið fyrir netglæp mælir lögreglan með því að þú tilkynnir það strax til þíns viðskiptabanka og með því að senda lögreglu tölvupóst á cybercrime@lrh.is.