Mikla athygli hefur vakið sú fullyrðing breska dagblaðsins Telegraph, að svokölluð ferðamannabóla á Íslandi sé sprungin.
Fullyrðingin, sem reist er á annað hvort röngum eða engum gögnum, markar ekki fyrsta og heldur ekki annað skiptið sem blaðið gerir þetta að umfjöllunarefni.
„Hvernig ferðamannabólan á Íslandi sprakk loksins,“ stendur í fyrirsögninni sem birtist á vef Telegraph á sunnudag.
Keimlík fyrirsögn prýddi umfjöllun blaðsins um ferðaþjónustugeirann á Íslandi í mars árið 2018, nema þá var hún sett fram í formi spurningar:
„Er ferðamannabólan á Íslandi loksins sprungin?“
Í þeirri grein var einnig fullyrt að ferðamönnum til Íslands hefði fækkað, þegar sú var ekki raunin.
Og þrátt fyrir að hafa svarað eigin spurningu, ranglega, ákvað blaðamaðurinn að endurnýta fyrirsögnina aðeins tæpu ári síðar, eða í febrúar 2019.
Síðan liðu sex og hálft ár þar til annar blaðamaður dagblaðsins fékk þetta sama hugðarefni.
Munurinn er að sá lætur vera að varpa fram spurningunni í þriðja skiptið, heldur tekur hann af skarið og fullyrðir að nú sé bólan loksins sprungin.
Ekki nóg með það, heldur reynir hann að útskýra orsakir einhvers sem hefur ekki einu sinni átt sér stað.
„Þetta er stórfurðuleg fréttamennska hjá þessum miðlum og hreinlega rangar fullyrðingar sem þarna koma fram,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Vísar hann einnig til þess sem sömuleiðis var greint frá í morgun, hvernig Daily Mail fylgdi í kjölfar Telegraph.
Miðillinn bætir um betur og talar um hrun íslenskrar ferðaþjónustu.
„Þeir eru með vitlausar tölur þarna, sem ég veit ekki hvaðan þeir fá,“ segir Jóhannes.
„Það er stórundarlegt að fréttamiðlar af þessu kalíberi skuli birta svona.“