Eina alvarlega slysið sem orðið hefur á gatnamótum Lækjargötu og Vonarstrætis var þegar skotbómulyftari keyrði með gafflana uppi inn í hlið sendibifreiðar sem ekki virti biðskyldu, með þeim afleiðingum að ökumaður lést.
Ólafur Kr. Guðmundsson umferðarsérfræðingur segir að sérstakar aðstæður hafi verið við gatnamótin á þessum tíma, vegna byggingar hótelsins á horni Lækjargötu og Vonarstrætis og þess að ökumenn voru báðir undir áhrifum lyfja.
„Að nota þetta slys sem ástæðu þess að þrengja gatnamótin er yfirklór og útúrsnúningur því hönnun gatnamótanna var ekki ástæðan fyrir slysinu. Ökumaðurinn sem lést var undir áhrifum örvandi vímuefna, virti ekki biðskyldu og keyrði í veg fyrir vinnuvélina sem keyrði með gafflana uppi fram úr strætisvagni sem byrgði sýn að Vonarstræti. Gafflar vinnuvélarinnar voru ekki í réttri hæð og því er þetta slys fyrst og fremst vegna þess að báðir ökumenn voru ekki í ástandi til að vera í umferðinni og ekkert við hönnun gatnamótanna sem hefði getað komið í veg fyrir slysið.“
Ólafur segir að breytingarnar sem búið er að fara í nái út fyrir slysstaðinn og þrengingarnar sem nú er búið að gera á eystri hluta Lækjargötu með stefnu í norður hafi ekki á neinn hátt tengst umræddu banaslysi og við Mæðragarðinn sé búið fækka um 4-5 rútustæði.
„Afnám vinstri akreinar norður Lækjargötu eykur slysahættu en dregur ekki úr henni. Þessi akrein sem var fyrst og fremst notuð sem beygjuakrein vinstri beygju að Skólabrú hefur verið stytt. Núna eftir þessa breytingu aukast tafir þegar bílar bíða eftir að taka vinstri beygju þar. Að mínu mati er hér verið að draga verulega úr umferðarflæði, tefja fyrir almenningssamgöngum og auka slysahættu á gatnamótum sem áður voru slysalaus.“
Ólafur segir að því miður sé þetta ekki einsdæmi og verið sé að þrengja að umferð um alla borg.
„Þegar verið er að breyta ljósastýringum þá er tækifærið notað til þess að þrengja að umferð með því að fækka akreinum, taka beygjuvasa og vinstri beygjur. Nýjustu dæmin eru á gatnamótum þar sem alvarleg umferðarslys hafa ekki orðið.“
Ólafur, sem hefur setið í skipulagsráði Reykjavíkur, segir að rökstuðningur sem notaður er við breytingar á gatnamótum sé sá að þær tryggi betur öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.
„Svo þegar maður skoðar slysagögnin þá eru sárafá slys á gangandi og hjólandi vegfarendum á þessum gatnamótum.“
Hann segir að gatnamót með hæstu slysatíðni séu öll ljósastýrð og tekur sem dæmi gatnamót Kringlumýrarbrautar við Miklubraut, Grensásvegar við Miklubraut og Reykjanesbrautar við Bústaðaveg.
„Öruggustu gatnamótin eru aftur á móti umferðarþyngstu gatnamót landsins sem eru að meðaltali með 130 þúsund bíla á sólarhring. Þessi gatnamót eru slysalaus enda eru þau mislæg og búið að aðgreina gangandi og akandi umferð. Mislæg gatnamót eru því öruggustu gatnamótin af þeim öllum.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
