Slétt hálf öld er í dag liðin frá því að íslensk varðskip hófu að aðvara bresk og þýsk fiskiskip um að þau væru á ólöglegum veiðum þar sem þau væru innan við 200 sjómílur frá Íslandsströndum.
Íslensk stjórnvöld höfðu miðað við að útfærsla fiskveiðilögsögunnar yrði 15. október 1975 og sú varð raunin þótt bresk stjórnvöld hefðu verið annarrar skoðunar. Í hönd fór þriðja og harðasta deilan í þorskastríðum Íslendinga og Breta.
Þessara tímamóta er minnst í blaðinu í dag og rifjuð upp umfangsmikil umfjöllun blaðsins á þessum degi fyrir hálfri öld. Á þessum tímamótum sendu fyrrverandi starfsmenn Landhelgisæslunnar einnig frá sér tilkynningu en félagsskapurinn kallar sig Öldungaráðið.
„Árangurinn náðist vegna pólitísks hugrekkis, samstöðu og viljastyrks þjóðarinnar. Árangurinn er undirstaðan að efnahagslegri velmegun landsins í dag,“ segir m.a. í tilkynningu frá Öldungaráðinu og ekki skuli undir neinum kringumstæðum framselja auðlindina og stjórnun hennar.
Nánar má lesa um málið á bls.6 og 12 í Morgunblaðinu í dag og í Mogga-appinu
