Ingibjörg Einarsdóttir og 14 ára sonur hennar, sem glímt hefur við alvarlegan fíknivanda, eru nú lögð af stað til Suður-Afríku þar sem drengurinn hefur fengið inni á meðferðarstofnun til að takast á við vanda sinn.
Hún setti af stað söfnun í síðustu viku til að geta farið með drenginn út í meðferð, vegna úrræðaleysis hér á landi, og hefur nú náð um 75 prósent af kostnaðinum. Það er nóg til að koma honum út og hefja meðferðina, en hún vildi ekki bíða lengur, af ótta við að hann hefði það einfaldlega ekki af. Það er þó viðbúið að einhver óvæntur kostnaður bætist ofan á en meðferðin sjálf kostar um þrjár milljónir króna.
„Ég verð bara ógeðslega fegin þegar ég er komin með hann inn í vél,“ sagði í Ingibjörg í samtali við mbl.is í gær. Þá var drengurinn ekki heima og hún með kvíðahnút í maganum. Henni finnst samt að hann sé tilbúinn að reyna að snúa blaðinu við.
„Ég þarf að halda vel á spöðunum núna. Mér finnst að hann sé feginn að ákveðnu leyti. Hann sagði sjálfur við mig að hann vildi fara til útlanda því meðferðirnar á Íslandi virkuðu ekki. Þess vegna setti ég allt á fullt,“ sagði Ingibjörg í gær.
Í morgun fékk blaðamaður að vita að þau væru komin út á flugvöll og að leggja af stað. Allt samkvæmt áætlun. Með þeim í för er önnur íslensk móðir og 14 ára sonur hennar sem er einnig á leið í meðferð á sömu meðferðarstofnun. Þá eru þar fyrir tvö önnur íslensk börn.
„Ég hef aldrei verið svona stressuð fyrir neinu ferðalagi á ævinni. Mér finnst mjög gaman að ferðast og er yfirleitt mjög örugg með mig þegar kemur að því að keyra í útlöndum og svona, en það er aðeins önnur tilfinning núna,“ segir Ingibjörg.
„Ég hugsa að það sé bara eitt svona ferðalag sem maður fer í á ævinni, eða það ætla ég rétt að vona,“ bætir hún við.
Um er að ræða níu til tólf mánaða fíkniefnameðferð á meðferðarstofnuninni Healing Wings í nágrenni borgarinnar Nelspruit í Suður-Afríku, sem staðsett er í fjalllendi fjarri byggð.
Ingibjörg hefur kynnt sér meðferðina vel og segir hana allt öðruvísi en það sem boðið er upp á hérna heima. Meðferðarstarfið sé mun marvissara. Þar fari fram bæði einstaklings- og hópavinna, sporavinna og fjölskylduvinna. Svo geti börnin verið í vinnu og skóla.
„Það er eitthvað prógram, ekki bara hangs í Playstation og farið í útivist í Nammiland í Skeifunni. Þarna fá þau aðhald með væntumþykju og hlýju. En tilhugsunin um að skilja barnið mitt eftir svona langt í burtu er svolítið erfið.“
Sjálf hyggst hún dvelja í Suður-Afríku í tvær vikur áður en hún fer aftur heim, svona til öryggis.
Ingibjörg hefur sagt sögu sonar síns hér á mbl.is og frá þrotlausri baráttu sinni fyrir því að koma honum í langtímameðferðarúrræði á Íslandi. Eftir að hafa mætt algjöru úrræðaleysi af hálfu Barna- og fjölskyldustofu sér hún ekki annan kost í stöðunni en að fara með drenginn úr landi.
Ekkert langtímameðferðarheimili fyrir drengi hefur verið starfrækt hér á landi í eitt og hálft ár, eða frá því Lækjarbakka var lokað vegna myglu í apríl í fyrra. Drengir sem lokið hafa hefðbundinni tólf vikna meðferð, sem nú fer fram á meðferðarheimilinu Blönduhlíð á Vogi, hafa því ekki komist í framhaldsmeðferð hér á landi. Sonur Ingibjargar er einn þeirra.
Til stendur að opna Lækjarbakka á ný í byrjun næsta árs, en Ingibjörg segir son sinn ekki geta beðið það lengi.
Drengurinn var aðeins 13 ára gamall þegar hann lenti í slæmum félagsskap, fór að drekka og ánetjaðist fíkniefnum. Neyslan ágerðist mjög hratt en hann hafði verið afreksbarn í íþróttum og mætt á landsliðsæfingar nokkrum vikum áður en allt var komið í óefni.
Ingibjörg vonast til að fjarlægðin frá Íslandi geri drengnum gott, en hann hefur ítrekað strokið úr þeim meðferðarúrræðum sem hann hefur verið í og sótt sér fíkniefni. Á sjö mánaða tímabili, fyrst í þriggja mánaða meðferð í Blönduhlíð og svo í fjögurra mánaða vistun á Stuðlum, skilaði hann aldrei hreinni þvagprufu, að sögn Ingibjargar.
Á sunnudag birtist hér á mbl.is viðtal við móður drengs er nú í meðferð á Healing Wings og hefur verið frá því í lok ágúst. Hún segist sjá ótrúlegan mun á syni sínum á ekki lengri tíma en þetta. Hann sé í fyrsta skipti farinn að taka ábyrgð eigin lífi og horfa til framtíðar. „Brosið er orðið einlægt,“ eins og hún orðaði það í viðtalinu.
Hér eru upplýsingar um söfnun Ingibjargar:
„Kæru ættingjar og vinir.