Þriggja daga heimsókn Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, í Peking lauk í morgun. Heimsókninni er framhaldið í Sjanghæ næstu tvo daga, fram á föstudag.
Halla hefur átt annasama daga að baki en hún hefur m.a. sótt ráðstefnu um jafnréttismál, fundað með Xi Jinping, forseta Kína, heimsótt jarðvarmafyrirtækið Arctic Green Energy og tekið þátt í fjölmennum viðburði í íslenska sendiráðinu í borginni.
Arctic Green Energy var stofnað af Hauki Harðarsyni en fyrirtækið hefur borað yfir eitt þúsund borholur í leit að heitu vatni í Kína og komið þar að fjölda jarðhitaverkefna. Halla, auk sendiherra Íslands í Peking, hittu Þórir Ibsen, forsvarsmenn fyrirtækisins, eftir hádegi á mánudag.
Eftir hádegi á þriðjudag, að loknum fundinum með Xi Jinping, fóru forseti Íslands og fylgdarlið í skoðunarferð um Forboðnu borgina í Peking. Halla veitti einnig íslensku og kínversku fjölmiðlafólki viðtöl.
Síðdegis á þriðjudag átti Halla samtal við fjölmiðlakonuna Kelsey Cheng í samkomusal íslenska sendiráðsins. Ræddu þær m.a. um áskoranir í umhverfismálum og samstarf Kína og Íslands á sviði jarðhita.
Í dag, miðvikudag, heldur Halla til Sjanghæ en þar mun hún sitja kvöldverð með fulltrúum íslenskra fyrirtækja sem eru með starfsemi í Kína. Mun hún einnig flytja ávarp á alþjóðlegri viðskiptaráðstefnu um umhverfismál og ábyrga stjórnarhætti.