Vonandi verður í framtíðinni hægt að byggja upp nýja og endurbætta útgáfu af Norðurskautsráðinu. Ráðið er enn starfandi og er að vinna mikilvægt starf en það fer að mestu fram undir pólitíska radarnum.
Þetta sagði David Balton, kennari í norðurslóðarfræðum við Harvard Kennedy-skólann í Bandaríkjunum og fyrrverandi starfsmaður bandarískra stjórnvalda, á opnu málþingi Háskóla Íslands og Háskóla norðurslóða sem stendur yfir í dag.
Norðurskautsráðið var stofnað árið 1996 sem vettvangur samstarfs um sjálfbæra þróun á norðurslóðum, með virkri þátttöku frumbyggja á svæðinu. Í ráðinu koma saman annað hvert ár utanríkisráðherrar aðildarríkjanna og veita leiðsögn um starfsemi ráðsins. Þess á milli sinnir nefnd embættismanna þessu hlutverki. Aðildarríki ráðsins eru átta: Bandaríkin, Finnland, Ísland, Kanada, Danmörk, Noregur, Rússland og Svíþjóð.
Balton greindi frá því á málþinginu að Norðurskautsráðið hefði stækkað og sýnt mikinn metnað til að byrja með og meðal annars gert þrjá sáttmála tengdum leitar- og björgunarstarfi, olíumengun og vísindum en núna hefði dregið mjög úr samstarfinu, aðallega vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Einnig hefði stefna bandarískra stjórnvalda að undanförnu ekki hjálpað til, þar á meðal brotthvarf Bandaríkjamanna frá Parísarsáttmálanum og ummæli Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að sölsa undir sig Grænland og Kanada.
„Norðurskautsráðið er enn besti vettvangurinn til að ræða heimskautamál. Það er enn á lífi og er að vinna góða vinnu en það fer að mestu fram undir pólitíska radarnum,” sagði Balton.
Hann gagnrýndi af hverju verkefnahópar aðildarríkjanna gætu ekki hist í eigin persónu í stað þess að hittast á fjarfundum. Hann kvaðst jafnframt vera bjartsýnismaður og sagðist vonast til að nýtt Norðurskautsráð yrði að veruleika, ekki endilega eins og það fyrir fimm árum heldur enn betra. Ráðið hefði nefnilega aldrei verið fullkomið.
Spurður hvað hægt væri að gera til að efla Norðurskautsráðið sagðist Balton vera með nokkrar hugmyndir en að þær væru ekki raunhæfar sem stendur miðað við pólitíska umhverfið í dag. Meðal annars þyrfti að koma til aukið samstarf við Rússa og aukinn sveigjanleiki bandarískra stjórnvalda.
Balton sagði þó að ráðið þyrfti á auknum fjárveitingum að halda til að geta haldið úti öflugri starfsemi.
Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, tók einnig þátt í málþinginu. Hún sagði að Norðurskautsráðið hefði unnið afar gott starf þrátt fyrir mjög erfiðar kringumstæður. Einnig benti hún á að bregðast hefði þurft við eftir innrás Rússa í Úkraínu. Ekki hefði verið í boði að gera ekki neitt.