„Það vakna fjölmargar spurningar um Sundabraut og mér sýnist á öllu og ég fékk það staðfest í heimsókn til Vegagerðarinnar á mánudag að ekki stæði til að brautin yrði notuð af Mosfellingum og íbúum nærliggjandi hverfa,“ segir Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Morgunblaðið.
„Við erum hér að tala um íbúa Grafarholts, Úlfarsárdals og hluta Grafarvogs, sem miðað við legu Sundabrautar munu ekki geta nýtt sér Sundabraut,“ segir hún.
Diljá nefnir að Sundabraut sé framkvæmd sem lengi hafi verið beðið eftir og augljóst sé að verið sé að notast við nær þrjátíu ára gamlar hugmyndir um legu brautarinnar.
„Það virðist ekki vera tekið nægjanlegt tillit til þeirrar gríðarlegu uppbyggingar sem átt hefur sér stað á þessum slóðum og fjölgunar íbúa í hverfunum. Það búa álíka margir í Grafarvogi og í Akureyrarbæ. Síðan stendur til að fjölga íbúum verulega á svæðinu með uppbyggingu Keldnalands þar sem áform eru um 12 þúsund manna byggð. Einnig á að fjölga íbúum í Úlfarsárdal svo íbúafjöldinn þar verði 14 þúsund og mikil uppbygging stendur til á svæðunum í kring. Ég fékk það staðfest í heimsókninni til Vegagerðarinnar að ekki stæði til að brautin gripi alla þessa íbúa,“ segir Diljá Mist.
Hún vekur athygli á því að Grafarvogsbúar séu ekki áfjáðir í að fá þjóðveg í gegnum hverfið og segist vilja sjá að einhver alvöruathugun hafi verið gerð á stórtækari hugmyndum um göng og kveðst heyra ákall um það hjá nágrönnum sínum í Grafarvogi, en einnig hjá íbúum í nærliggjandi hverfum. Hún kveðst heyra það á öllum málflutningi um Sundabraut að embættismenn séu búnir að tala sig saman niður á þá útfærslu sem kynnt hefur verið.
„Ég velti fyrir mér hvort þessi undirbúningsvinna hafi verið nægjanlega stórhuga, hvort hún hafi tekið nægjanlegt mið af þeirri stöðu í samgöngumálum sem blasir við okkur í dag, en það mun bara bætast í þá mynd eftir því sem fram í sækir,“ segir hún og nefnir hina fjölmennu byggð sem áformuð er í Keldnalandi sem og í Blikastaðalandi í Mosfellsbæ. Mikil uppbygging eigi sér stað í austurhluta borgarinnar og þær hugmyndir sem kynntar hafa verið um Sundabraut virðist vera úr sér gengnar.
Hún vekur athygli á því að vinstri meirihlutinn í Reykjavík hafi unnið að því leynt og ljóst undanfarin ár að eyðileggja vegstæðið Reykjavíkurmegin þar sem Sundabraut á að koma að landi.
„Það virðist ekki vera gert ráð fyrir þeim fjölda fólks sem hefur bæst við undanfarin ár, hvað þá þeim fjölda sem á eftir að bætast við. Þetta mætir ekki þörfum nútímans og hvað þá framtíðarinnar,“ segir Diljá Mist.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
