Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram þingsályktunartillögu sem miðar að því að gefa eldri borgurum kost á því að taka þátt og fá greitt fyrir íslenskukennslu í leikskólum, grunnskólum og í atvinnulífinu án þess að það hafi áhrif á bætur eða almannatryggingakerfið.
Þetta sagði Halla Hrund Logadóttir undir liðnum störf þingsins á Alþingi fyrr í dag.
Sagði hún að í þingsályktuninni væri fyrst og fremst verið að horfa á stuðning við að hjálpa fólki að æfa sig í íslensku.
„Það er það sem skiptir máli því að við vitum öll að án þess að fólk tali sama tungumálið er aukin hætta á árekstrum og við sjáum það ef við lítum til landanna í kringum okkur að það verða árekstrar þegar fram líða stundir ef við rísum ekki upp og tökumst á við þetta viðfangsefni núna.“
Sagði þingmaðurinn þörfina vera mikla og nefndi að árið 2012 hafi 7,5% íbúa landsins verið af erlendum uppruna en það hlutfall væri komið upp í 20% í dag, ef ekki meira sums staðar á landinu.
Þá væri margvíslegur árangur af tillögunni, þá fyrst og fremst fyrir fjölskyldur af erlendum uppruna sem myndu ná að verða öflugri hluti af samfélaginu.
„Það er líka gríðarlega mikið vægi í því að fá eldri borgara inn í þetta verkefni og af hverju? Jú, vegna þess að eldri borgarar eru vitringar okkar samfélags. Þar er viskan. Þar er þekking á menningu okkar og sögu og þess vegna getur þetta nýst til að kynna hana sömuleiðis og efla tengsl á marga vegu.“
