Tónlistarmaðurinn Flosi Þorgeirsson segir heilbrigðiskerfið vera dæmi um molnun íslensks samfélags. Hann þurfti að leita til göngudeildar geðdeildar um daginn en á móti honum tók læknir sem talaði enga íslensku og takmarkaða ensku.
Flosi lýsir því í færslu á Facebook að hann hafi hitt lækni á geðdeildinni sem hafi verið af erlendu bergi brotinn. Læknirinn óskaði eftir að samtalið færi fram á ensku og varð Flosi við þeirri beiðni.
Hann segir að fljótlega hafi komið í ljós að læknirinn væri illa talandi á ensku og varð samtalið fljótt þvingað.
Flosi segir að fólk sem leiti til geðdeildar sé margt mjög veikt og að mæta til læknis sem geti ekki rætt við fólk geti haft gífurlega neikvæð áhrif.
„Ég get ímyndað mér að ég hefði getað brugðist öðruvísi undir öðrum kringumstæðum. Ef ég hefði verið virkilega veikur og þunglyndið svo slæmt að ég væri með endalausar dauðahugsanir og niðurrifsraddir í höfðinu? Hvað ef ég hefði jafnvel ekki getað talað ensku?
Sá maður hefði gengið aftur út án hjálpar. Gleymum ekki að þetta er göngudeild geðdeildar. Geðsjúkdómar drepa ansi marga á hverju ári. Af öllum sem látast á hverju ári á heimsvísu er talið að rekja megi um 15% til andlegra sjúkdóma,“ skrifar Flosi og heldur áfram:
„Ég er með sjálfsöryggi og virðingu fyrir sjálfum mér. Ég hef einnig mikla þekkingu og reynslu af þessu. Ég vissi því alveg hvað amaði að mér en vildi ræða það samt við fagaðila. Langflest sem leita aðstoðar eru það ekki. Það er fólk sem er gjörsamlega að niðurlotum komið. Að mæta til læknis sem það getur ekki einu sinni rætt við getur haft gífurleg neikvæð áhrif.“