Hægt að senda inn ábendingar um Reykjavíkurleiðina

Samráðsgáttin verður opin til 29. október.
Samráðsgáttin verður opin til 29. október. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samráðsgátt fyrir tillögur að umbótum á náms- og starfsumhverfi leikskóla í Reykjavík var opnuð í dag, miðvikudaginn 15. október. Tekið verður á móti ábendingum og tillögum um breytingar næstu tvær vikur, eða til 29. október næstkomandi. 

Um er að ræða tillögur að breytingum sem snúa að dvalartíma barna, breyttu skipulagi og nýrri gjaldskrá. Sem felur meðal annars í sér að allir afsláttarflokkar verða felldir niður nema starfsmanna- og systkinaafsláttur en í staðinn verður foreldrum til dæmis umbunað fyrir að sækja börn fyrr og fá felldan niður heilan mánuð af leikskólagjöldum ef börn nýta ekki vistun á skráningardögum eins og á milli jóla- og nýárs, í dymbilviku og vetrarfríi grunnskóla.

Umdeildar tillögur

Í samráðsgáttina getur fólk sent inn ábendingar, lagt til breytingar og deilt sinni skoðun á tillögunum og þannig tekið þátt í að móta náms- og starfsumhverfi í leikskólum borgarinnar. 

„Helstu breytingar samkvæmt tillögunum felast í fyrirsjáanleika skráningardaga og nýrri gjaldskrá sem felur í sér hvata til að hafa dvalartíma barna sem næst 38 stundum á viku í meira samræmi við vinnutíma starfsfólks leikskóla. Þá er einnig gert ráð fyrir 25 prósenta afslætti af námsgjaldi ef börn eru ekki skráð eftir klukkan 14:00 á föstudögum,“ segir í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar.

Tillögurnar hafa hlotið töluverða gagnrýni og hefur Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, bent á að leikskólagjöld í Reykjavík verði þau hæstu á höfuðborgarsvæðinu eftir breytingar fyrir fólk sem nýtur ekki niðurgreiðslna.

„Leiðin veltir byrðunum duglega á vinnandi foreldra og felur í sér margvíslegar breytingar sem íþyngja munu fjölskyldum,“ skrifaði Hildur um tillögurnar á Facebook-síðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert