Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, og Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, minntust þess bæði á Alþingi í dag að liðin væru 50 ár frá því að fiskveiðilögsagan var færð út í 200 mílur. Það hafi verið tákn fyrir fullveldi þjóðarinnar sem beri að verja.
„Útfærsla íslenskrar fiskveiðilögsögu í 200 mílur árið 1975 var ekki aðeins efnahagslegt og pólitískt afrek heldur djúpstæð yfirlýsing um fullveldi þjóðarinnar. Með þeirri ákvörðun tóku Íslendingar örlögin í sínar eigin hendur og tóku yfir stjórn á hafsvæði sem jafngilti sjöföldu flatarmáli Íslands. Þar með var lagður hornsteinn að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar og þeirri hagsæld sem fylgdi í kjölfarið,“ sagði Bergþór undir liðnum störf þingsins.
Sagði hann að fyrir Ísland, sem byggi hag sinn á nýtingu náttúruauðlinda, hefði 200 mílna lögsagan verið lykilatriði í tryggingu þess að ávöxtur hafsins rynni til þjóðarinnar.
„Hún var tákn um að fullveldi felur ekki aðeins í sér pólitískt sjálfstæði heldur einnig yfirráð yfir auðlindum og framtíðarmöguleikum. Þessi grundvallarhugsun hefur síðan verið leiðarljós í baráttu Íslands fyrir viðurkenningu á landgrunnskröfum utan 200 mílna.“
Bergþór sagði áhrif lögsögunnar ná langt út fyrir fiskimiðin. Lögsagan hafi markað upphaf nýs skeiðs í fullveldi þjóðarinnar þar sem sjálfsforræði um auðlindir og framtíðarmöguleika í hafinu hafi verið lykilatriði í þjóðaröryggi og sjálfbærri þróun. Það væri arfleifð sem þyrfti að verja og byggja á á komandi áratugum.
„Sú vegferð sem ríkisstjórnin er á vekur með mér ugg um að tilfinningin fyrir mikilvægi fullveldisins sé ekki sú sama og hún var, að ráðherrabekkurinn skilji ekki samhengi hlutanna. Það er skylda okkar sem á Alþingi sitjum að verja þessa stöðu og nýta hana til hagsbóta fyrir land og þjóð. Aðeins þannig náum við að fagna viðlíka tímamótum að öðrum 50 árum liðnum. Við þessi tímamót segi ég: Til hamingju, Ísland — en minni um leið á að stöðuna þarf að verja í stað þess að glutra henni niður, eins og nú virðist á köflum stefna í.“
Stuttu síðar tók Guðrún Hafsteinsdóttir til máls og tók í sama streng. Lögsagan hafi verið tákn um fullveldi, kjark og langtímasýn.
„Í kjölfarið hófst þriðja þorskastríðið og síðustu bresku togararnir fóru út úr íslenskri landhelgi 1. desember 1976. Með þessu náðum við yfirráðum yfir auðlindum hafsins og lögðum grunn að lífskjörum sem við njótum enn.“
Guðrún sagði að nú, 50 árum síðar, þyrfti að standa vörð um 200 mílurnar með árverkni.
„Ríkisstjórnin hefur boðað þjóðaratkvæðagreiðslu um skref í átt að Evrópusambandinu fyrir árslok 2027. Ef slíkri vegferð er ætlað að tryggja stöðu Íslands þarf að tala skýrt um kjarnann. Hvað verður um 200 mílurnar og landgrunnið ef gengið er til samninga án varanlegra undanþága um full yfirráð Íslands á hafsvæðinu frá 12 til 200 mílna? Án slíkra trygginga yrði svæðið að sameiginlegu sambandshafsvæði þar sem gilda reglur um hlutfallslegan stöðugleika og rétt annarra þjóða til veiða. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ætíð varið yfirráð Íslendinga yfir auðlindum hafsins, og við tökum þá ábyrgð alvarlega.“
Guðrún hvatti því næst Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra, til að lýsa því yfir að engin skref yrðu tekin sem myndu grafa undan 200 mílunum eða veita öðrum ríkjum hlut í þeim.
„Ef ríkisstjórnin hyggst hefja viðræður verður hún að setja fram skýrt markmið um varanlega undanþágu, festa hana í samningum og fá samþykki allra. Minna má ekki duga, þrátt fyrir að engin fordæmi séu til um slíkt. Við getum heiðrað fortíðina með fögrum orðum, en við heiðrum hana fyrst og fremst með verkum okkar. Við stöndum vörð um 200 mílurnar. Það er ekki aðeins hagsmunamál sjávarútvegsins — það er hagsmunamál allrar þjóðarinnar.“