Frumkvöðullinn og athafnamaðurinn Haraldur Ingi Þorleifsson segir farir sínar ekki sléttar af viðskiptum sínum við Öryggismiðstöðina.
Hann fór með hjólastól sinn í viðgerð hjá Öryggismiðstöðinni í morgun en heyrði aldrei aftur frá fyrirtækinu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Haraldur, sem notar hjólastól, var því fastur í rúminu í dag. Öryggismiðstöðinni hefur verið lokað í dag og er ljóst að hann fær ekki stól sinn til baka fyrr en í fyrsta lagi á morgun.
Í samtali við mbl.is segir Haraldur að ljóst sé að starfsfólk Öryggismiðstöðvarinnar átti sig ekki á því hversu mikilvægt starf þeirra er.
Haraldur hafði fengið upplýsingar um að viðgerðin ætti aðeins að taka 2-3 klukkustundir. Hann átti því fullan vinnudag fyrir höndum en gat ekki sinnt þeim skyldum þar sem hann fékk stólinn aldrei til baka.
Haraldur segir að hann hafi átt að fá stólinn til baka klukkan tólf í dag. Klukkan eitt hafði hann ekkert heyrt og hafði hann því samband við fyrirtækið. Var hann beðinn um að hringja aftur eftir klukkutíma.
Klukkutíma síðar fékk Haraldur sama svar. Hann hringdi því aftur klukkan þrjú en fékk ekkert svar um hvenær stóllinn yrði tilbúinn.
„Síðan klukkan fjögur ætluðum við að fara að sækja stólinn svo við myndum örugglega fá hann. Ég var að fara að vinna í kvöld og var að fara að hitta fólk, en leigubílstjórinn var bara sendur í burtu og stólinn var ekki til,“ segir Haraldur.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Haraldur lendir í sambærilegu atviki hjá Öryggismiðstöðinni en fyrirtækið er auglýstur umboðsaðili fyrir stólinn sem Haraldur notar. Miðstöðin þarf því að sjá um viðgerðir fyrir hann.
„Þetta er bara eitt af mörgum dæmum þar sem þetta hefur ekki gengið upp þannig ég er farinn að efast um það að þeir ráði við að sinna þessari þjónustu,“ segir Haraldur.
Uppfært kl. 21:40:
Ómar Örn Jónsson, framkvæmdastjóri velferðalausna hjá Öryggismiðstöðinni, segir að ávalt sé reynt að hafa viðgerðarþjónustu eins hraða og skilvirka og hægt er. Þegar um flókinn rafmagnsbúnað, eins og rafmagnshjólastóla, er að ræða geti þó alltaf komið upp aðstæður þar sem verkefni reynast flóknari en ætlað var.
Ómar segir að í slíkum tilfellum sé notandinn ávalt látinn vita af töfum og upplýstur um framgang verksins.
„Um viðgerðarþjónustuna gildir samningur við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) sem er eigandi hjálpartækjanna. Það er afar mikilvægt að notendur hafi auka hjólastól til umráða til að bregðast við bilunum sem þessum. Reglur SÍ kveða á um rétt fólks til að fá úthlutað varastól, en því miður er ekki í boði að sá stóll sé einnig rafmagnshjólastóll. Varastóllinn þarf þannig að vera handknúinn, sem er að sjálfsögðu veruleg skerðing fyrir þá sem þurfa rafmagnshjólastól til að komast ferða sinna,“ segir í svari Ómars.