Verkmenntaskólinn á Akureyri (VMA) og nemendafélagið Þórduna héldu í gær Styrkleikana en leikarnir voru í þágu Krabbameinsfélagsins og höfðu það að markmiði að sýna þeim sem hafa greinst með krabbamein og aðstandendum þeirra stuðning og styrk.
Benedikt Barðason, skólameistari VMA, setti leikana klukkan 8:30 í gærmorgun og var stefnt á að nemendur og starfsfólk tækju höndum saman og héldu boðhlaupskefli á lofti í 12 tíma, eða frá klukkan 8:30 til 20:30.
Aðalmarkmið verkefnisins var að vekja athygli á mikilvægu málefni og að sameina krafta fyrir góðan málstað.
„Styrkleikarnir byggjast á samstöðu, samveru og samhug nemenda og starfsfólks sem vilja sýna stuðning, virðingu og samkennd með þeim sem hafa orðið fyrir áhrifum krabbameins,“ segir í tilkynningunni.
Í tengslum við Styrkleikana var áheitasöfnun þar sem safnað var fé fyrir Krabbameinfélag Íslands sem nýtist til krabbameinsrannsókna ásamt því að veita þeim sem hafa greinst með krabbamein ráðgjöf og þjónustu.
Enn er opið fyrir áheitasöfnunina og er hægt að styrkja hér.
