Hlaðvarpsstjórnandinn og lífskúnstnerinn Helgi Jean Claessen segir upphaf síns andlega ferðalags hafa hafist með smáum skrefum, þegar hann var að reyna að takmarka þjáningu hvers dags. Hann hafði verið hættur að drekka í fimm ár þegar hann prófaði hugvíkkandi efni í fyrsta skipti, sem hann lýsir sem „bónstöð fyrir heilann“.
Helgi er gestur Dagmála og ræðir þar sitt andlega ferðalag, hugvíkkandi efni, samfélagið, fjölástasambönd og fleira. Hann þekkir vel hvernig það er að ganga niður veg hins óhefðbundna.
Í hlaðvörpum sínum hefur Helgi talað opinskátt um sitt andlega ferðalag og reynslu af hugvíkkandi efnum. Spurður hvernig sú vegferð hafi hafist segir hann að hann hafi verið byrjaður að taka til í grunninum í lífi sínu löngu áður. Ætlunin hafi þó ekki upphaflega verið að fara í neins konar andlegt ferðalag.
„Ég var bara að bjarga mér frá því að vera ekki brjálæðislega þunglyndur alla morgna yfir því að vera ég. Þar var þar sem mitt ferðalag byrjaði. Ég var ekki með neinn gúru eða bók. Ég var bara að reyna að takmarka þjáningu hvers dags fyrir sig. Það var það sem ég byrjaði á og í því ferli byrjaði ég að vera glaður og ánægður og ég fór að verða sá sem ég er í dag,“ segir Helgi.
Hann segir leiðina að þeim stað hafa falist í litlum, auðmýkjandi skrefum sem þó hafi haft mikil áhrif. Meðal annars hafi áfengisdrykkjan dottið út í því ferli.
Helgi hafði því verið hættur að drekka í fimm ár þegar hann prófaði að taka svokallaðan míkródós af svepp í fyrsta skipti.
„Við erum í heitri náttúrulaug á Vestfjörðum og ég tek svona mola og allt í einu horfi ég á fjall og er bara að „tala“ við það í hálftíma. Ég var bara þögull og þurfti ekkert að segja. Það þurfti engin orð. Ég bara allt í einu sá fjallið,“ segir Helgi og heldur áfram að lýsa þeirri tilfinningu sem hann upplifir þegar hugvíkkandi efna er neytt.
„Þetta er eins og að fara á bónstöð fyrir heilann, ólíkt fylleríinu sem skilur þig eftir í móral, með hausverk og alveg í bullinu.
Það sem sveppirnir geta gert, og hugvíkkandi efni, er að sýna þér alla tilfinninguna - alveg botninn á tilfinningunni. Það eru svona tilfinningar sem eru að plaga okkur stundum. Við finnum stundum fyrir henni, erum kannski að ýta við henni, forðumst hana, og þess vegna, náttúrulega, er fólk að reyna að deyfa sig fyrir henni, breiða yfir hana eða bæta upp fyrir hana,“ segir Helgi og nefnir sem dæmi fólk eins og „vinnualka“ sem líta vel út á yfirborðinu og eru vel staddir fjárhagslega.
„En það er þetta tóm innra með þeim. Tilfinning sem það er að flýja. Eða það deyfir sig niður. Það keyrir sig áfram með kaffi eða nikótíni eða áfengi. Þetta eru tilfinningar sem vilja vera fundnar. Það sem hugvíkkandi efni gera er að þau hjálpa þér að fara inn í [þær]. Ekki frá [tilfinningunni] heldur inn í hana.“
Er það ekki erfitt?
„Jú, það er bara jafn erfitt eins og það er að drekka ekki áfengi og nota ekki nikótín og hella sig ekki fullan af kaffi. Það er það erfitt. Allt samfélagið er á flótta undan þessu. Þetta er stóri flóttinn. [Flóttinn] frá því að finna.“