Hver hola kostar allt að 1,7 milljarða

Hellisheiðarvirkjun. Stórt borverkefni er í gangi á Hellisheiði.
Hellisheiðarvirkjun. Stórt borverkefni er í gangi á Hellisheiði. mbl.is/Golli

Til að tryggja nægt heitt vatn á veitusvæðum Veitna til langrar framtíðar hefur fjárfesting í forðaöflun verið aukin í nýrri fjárhagsspá fyrirtækja innan samstæða Orkuveitunnar fyrir árin 2026 til 2030.

Alls verður fjárfest í virkjunum og veitukerfum fyrir 110,5 milljarða króna og þar koma jarðboranir töluvert við sögu.

Komið að þolmörkum 

Að sögn Snorra Hafsteins Þorkelssonar, framkvæmdastjóra fjármála hjá Orkuveitunni, er komið að ákveðnum þolmörkum varðandi framboð hjá Veitum á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu. Þörf sé á að bora meira og leita eftir heitu vatni til að afla meiri forða. Einnig er m.a. þörf á að styrkja flutningskerfið á höfuðborgarsvæðinu.

Veitur ætla að bora eftir heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni, meðal annars á Akranesi, í Borgarfirði og í kringum Hveragerði.

Sex vinnsluholur 

Hjá ON verður jafnframt fjárfest í orkuöflun upp á 55 milljarða króna á tímabilinu. Stórt borverkefni er í gangi á Hellisheiði þar sem áætlað er að bora sex vinnsluholur og tvær niðurdælingarholur. Þörf er á þessum holum til að viðhalda fullri framleiðslu virkjana.

Kostnaður við hverja vinnsluholu hjá ON nemur frá 900 milljónum króna til 1,7 milljarða og fer það eftir staðsetningu hola og tengikostnaði.

Borað dýpra ofan í jörðina en áður

Rannsóknar- og nýsköpunarverkefni sem snýr að djúpnýtingu (IDDP) er einnig í bígerð hjá Orkuveitunni. Það snýst um að bora dýpra ofan í jörðina en áður til að sækja meiri orku í stað þess að fjölga holum.

Hellisheiðarvirkjun.
Hellisheiðarvirkjun. mbl.is/Árni Sæberg

Um er að ræða samstarfsverkefni sem hefur verið í gangi í nokkur ár og nú er komið að Orkuveitunni að bora næstu slíka holu. Aðrar tvær djúpnýtingarholur hafa verið boraðar á Íslandi, ekki þó á vegum Orkuveitunnar.

„Það er fullt af verkfræðilegum áskorunum sem tengjast því að fara svona neðarlega,” segir Snorri Hafsteinn og nefnir að venjulegar borholur séu um 1,5 til 2,5 km djúpar, eða að meðaltali um 2 km, en djúpnýtingarholurnar fari aftur á móti meira en 3 km niður í jörðina.

„Mjög spennandi vegferð“

„Þetta er mjög spennandi vegferð upp á frekari nýtingu á jarðhitanum. Það er í raun miklu orkumeira og heitara kerfi neðar, sem við erum ekki komnir með tækni til að nýta af ráði en erum að vonast til þess að það gangi,” bætir hann við en það mun taka nokkur ár að þróa verkefnið.

Snorri Hafsteinn Þorkelsson.
Snorri Hafsteinn Þorkelsson. Ljósmynd/Aðsend

Snorri segir útlit fyrir að djúpnýtingarholan verði boruð annað hvort á Hellisheiði eða á Nesjavöllum á næsta ári. Verkefnið er fjármagnað að hluta til með styrkjum, í samstarfi við erlend félög með þekkingu á þessu sviði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert