Maður er í haldi lögreglu vegna gruns um kynferðisbrot gegn stúlkubarni sem átti sér stað í Hafnarfirði í gærkvöld.
Kristján Ingi Kristjánsson, lögreglufulltrúi í kynferðisbrotadeild lögreglunnar, staðfestir í samtali við mbl.is að maðurinn hafi verið handtekinn vegna gruns um kynferðisbrot.
„Rannsókn þessa máls er á frumstigi og það á eftir að taka skýrslur af sakborningi og vitnum en að öðru leyti get ég ekki tjáð mig um málið á þessari stundu,“ segir Kristján Ingi í samtali við mbl.is.
Spurður hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir manninum segir Kristján Ingi að ekki sé búið að taka ákvörðun um það.
