Mjólkursamlag KS hefur ákveðið að innkalla fjórar tilteknar framleiðslulotur af pitsasósu. Ástæðan er möguleiki á seinni gerjun eftir framleiðslu, sem getur valdið því að flöskur bólgna eða jafnvel springa.
Í tilkynningu frá Mjólkursamlagi KS segir að vörurnar séu ekki hættulegar en ekki sé þó ráðlagt að neyta þeirra.
Loturnar eru 25-1208, 25-1615, 25-1690 og 25-1847 og eru bestar fyrir 22. maí 2026, 2. júlí 2026, 11. maí 2026 og 5. júní 2026.
Um er að ræða Ikea-pitsasósu með strikamerkinu 5694310541169, Bónus-pitsasósu með strikamerkinu 5690575211755, og E. Finnsson-pitsasósu með strikamerkinu 5690575211403.
Þá er neytendum sem keypt hafa vörurnar bent á að þeir geti skilað þeim í þá verslun sem þær voru keyptar, snúið sér til Vogabæjar, Bitruhálsi 2 í Reykjavík eða Mjólkursamlags KS á Sauðárkróki.
/frimg/1/60/37/1603707.jpg)