Endurgerð Vörðuskóla við Barónsstíg í Reykjavík hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig. Reykjavíkurborg keypti húsnæðið af ríkinu árið 2020 og var ætlunin að starfrækja þar skóla til að mæta fjölgun íbúa í nærliggjandi hverfum.
Ráðist var í framkvæmdir árið 2022 og enn sér ekki fyrir endann á þeim. Áfallinn kostnaður vegna þessa er orðinn rúmur milljarður króna. Nú er búist við verklokum 2028.
Nú hefur verið fallið frá fyrri áformum, en samþykkt tillaga um að farið verði í undirbúningsvinnu fyrir húsnæði Vörðuskóla og það endurgert og hannað þannig að hægt sé að reka þar sjálfstætt skóla- og frístundastarf var lögð fram í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar sl. mánudag. Jafnframt var lagt til að nýta húsnæðið, þegar það verður loks tilbúið, fyrir skóla- og frístundastarfsemi sem er í húsnæði sem þarf að fara í stórar viðhaldsframkvæmdir.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu, þau Helgi Áss Grétarsson og Marta Guðjónsdóttir, sátu hjá við afgreiðslu málsins. Þau segja í bókun sem þau gerðu á fundinum að að meðtöldum kostnaði við kaup á byggingunni á sínum tíma hafi borgin fjárfest fyrir meira en 1.000 milljónir í húsnæðinu. Með framkominni tillögu sem samþykkt var á fundinum sé ætlunin að klára framkvæmdir við Vörðuskóla og nýta svo húsnæðið sem skóla er taki við nemendum sem hverfa þurfi frá öðrum skólabyggingum, svo sem vegna mygluframkvæmda og annarra viðgerða.
Bent er á að engin kostnaðaráætlun fylgdi tillögunni og ekki hafi verið tekin ákvörðun um að veita fjárheimild til að fylgja tillögunni eftir. Með hliðsjón af fjárhagslegri framvindu verkefna sem tengjast Vörðuskóla og óvissu um kostnað sitji fulltrúarnir hjá við afgreiðslu málsins.
Framangreindur milljarður skiptist þannig að 263 milljónum var varið til kaupa á húsinu á sínum tíma, en endurbæturnar sem enn sér ekki fyrir endann á hafa kostað 751 milljón.
Segja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu að þótt þeim hafi þótt skynsamlegt að klára bygginguna í þágu skólastarfs í borginni þá telji þeir óforsvaranlegt og óábyrgt að styðja málið í ljósi sögu borgarinnar um framúrkeyrslu í framkvæmdum og þess að engar upplýsingar liggi fyrir um kostnað við að gera bygginguna tilbúna fyrir skóla- og frístundastarf.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
