Næst ekki í menntamálaráðherra

Rétt er að taka fram að þetta er ekki í …
Rétt er að taka fram að þetta er ekki í fyrsta sinn, og heldur ekki í annað sinn, sem ráðherrann kemur sér hjá viðtölum að loknum ríkisstjórnarfundi og lofar því að svara spurningum blaðamanns síðar um daginn, en gerir það svo ekki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, sótti ekki ráðstefnu um samræmd viðbrögð við ofbeldi meðal barna sem ráðuneyti hans boðaði til á mánudag.

Til stóð samkvæmt auglýstri dagskrá, sem send var fjölmiðlum á föstudag, að ráðherra myndi setja ráðstefnuna að morgni. Þá var skýrt tekið fram að hann yrði einnig þar til viðtals.

Morgunblaðið og mbl.is hafa síðustu misseri fjallað ítarlega um neyðarástand í málefnum barna með fjölþættan vanda, sem bætist ofan á þann mikla vanda í skólakerfinu sem miðlarnir hafa áður varpað ljósi á.

Í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar mbl.is um úrræðaleysi í meðferðarmálum hér á landi, og nú síðast viðtala við mæður sem tekið hafa erfiðar ákvarðanir um að senda börn sín til Suður-Afríku í kostnaðarsama meðferð, hafa vaknað fleiri spurningar sem ráðherra þyrfti að svara.

Margsinnis hefur verið óskað eftir viðtölum við ráðherrann vegna þessa. Þeim hefur ítrekað verið hafnað. Þá hefur ýmist illa eða ekki náðst í ráðherrann eða aðstoðarmenn hans.

Staðgengill ráðherra gaf ekki kost á viðtali

Sem fyrr sagði hélt ráðuneytið ráðstefnuna á mánudag, sem snerist um víðtækar aðgerðir stjórnvalda og samræmd viðbrögð við ofbeldi meðal barna.

Í fundarboðinu var sérstaklega tekið fram að mennta- og barnamálaráðherra myndi ávarpa vinnufundinn og vera til viðtals.

Við komu sína á fundinn þann morgun var blaðamanni aftur á móti tilkynnt að Guðmundur Ingi kæmist ekki á fundinn og staðgengill hans, ráðuneytisstjórinn Erna Kristín Blöndal, kæmi í staðinn.

Erna myndi ávarpa fundinn og fundarstjóri, Alfa Jóhannsdóttir forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, myndi tengja blaðamann við hana fyrir viðtal. Að erindi loknu tilkynnti fundarstjóri blaðamanni aftur á móti að ráðuneytisstjórinn hefði orðið að rjúka annað.

Ekkert varð því úr viðtalinu.

Yfirgaf fund ríkisstjórnarinnar

Blaðamaður leitaði því með spurningarnar á fund ríkisstjórnarinnar í gærmorgun, en þeir eru að jafnaði haldnir tvo morgna í viku og gefa ráðherrar yfirleitt kost á viðtölum þar á eftir.

Ráðherrann yfirgaf aftur á móti fundinn skömmu áður en honum lauk, en eftir að hann hafði verið upplýstur um að blaðamaður biði hans.

Á leið frá fundinum var aðstoðarmaður ráðherrans, Ágúst Ólafur Ágústsson, enn fremur upplýstur um hvert erindið væri. Tilkynnti hann blaðamanni að ráðherrann væri á hlaupum en að hann myndi einmitt ræða málefnið í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi síðar um daginn.

Ráðlagði hann blaðamanni að fylgjast með fundinum.

Næst ekki í aðstoðarmann eða upplýsingafulltrúa

Engri fyrirspurn var þó beint að ráðherranum á þingfundinum og var hann hvergi sjáanlegur í útsendingu frá Alþingi.

Rétt er að taka fram að þetta er ekki í fyrsta sinn, og heldur ekki í annað sinn, sem ráðherrann kemur sér hjá viðtölum að loknum ríkisstjórnarfundi og lofar því að svara spurningum blaðamanns síðar um daginn, en gerir það svo ekki.

Hvorki hefur náðst í aðstoðarmenn ráðherra né upplýsingafulltrúa ráðuneytisins.

Uppfært: Í upphaflegri frétt var missagt að fundarstjóri hefði verið Auður Alfa Ólafsdóttir, en hið rétta er að fundarstjóri var Alfa Jóhannsdóttir forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert