Íbúar í Grafarvogi óttast að verði Sundabraut lögð sem brú, fremur en göng, geti það aukið umferð inn í hverfið enn frekar. Þeir spyrja sig hvort brautin verði í raun samgöngubót fyrir Grafarvog, eins og Vegagerðin hefur haldið fram.
Guðmundur B. Friðriksson, íbúi í Grafarvogi, er einn af þeim sem hafa gagnrýnt framsetningu Vegagerðarinnar, m.a. það að brúarkostir séu vænlegri kostir við lagningu Sundabrautar en göng. Hann telur göng vera ákjósanlegri kost fyrir íbúa hverfisins.
Íbúar hverfisins óttast að umferð í gegnum hverfið muni aukast á Gullinbrú, Hallsvegi og Víkurvegi og að hverfið verði gegnumaksturshverfi verði Sundabraut í formi brúar.
„Umferðin á klárlega eftir að aukast í gegnum hverfið. Ef það á ekki að mæta því með tvöföldun á Hallsvegi, sem sagt er að eigi ekki að gera, eða tengingu upp á Vesturlandsveg þá verða bara umferðahnútar í hverfinu. Þannig annaðhvort verða umferðahnútar eða veruleg aukning umferðar,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.
Íbúar hverfisins óttast einnig að verði hábrú fyrir valinu verði náttúruupplifun á Gufuneshöfðanum eyðilögð.
Í umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar vegna Sundabrautar er brautin kynnt sem samgöngubót fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Þar eru þrír kostir lagðir fram við lagningu hennar: hábrú, lágbrú eða göng.
Vegagerðin hefur áður mælt með því að brú verði fyrir valinu frekar en jarðgöng.
Guðmundur segir að allir kostirnir séu slæmir fyrir Grafarvoginn þó að gangakosturinn sé töluvert skárri. Göngin myndu opnast nyrst í hverfinu og ekki skera Gufunesið frá hverfinu. Þá verði Borgargarðurinn óraskaður auk þess sem gangaleiðin geri ekki ráð fyrir framlengingu Hallsvegar og skeri því ekki Grafarvogshverfið í tvennt.
„Það er það sem maður skilur ekki. Vegagerðin setur þetta upp sem verulega samgöngubót fyrir Grafarvogsbúa. Við fáum tengingu í gegnum Laugardalinn og niður í bæ en á sama tíma er þetta tenging fyrir önnur hverfi austan við okkur sem munu þá flæða í gegnum hverfið okkar. Þannig að það er verið að flytja umferðina af Vesturlandsvegi í gegnum hverfið okkar,“ segir Guðmundur um brúarkostina.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/10/13/sundabraut_talin_hafa_neikvaed_ahrif_a_loftgaedi/
„Fyrir okkur Grafarvogsbúa, fyrir lífsgæði, okkar eignir og okkar umhverfi í Grafarvoginum, þá eru göngin klárlega, myndi ég segja, besti kosturinn vegna þess að þá verður ekki þetta flæði í gegnum hverfið sem sker það í sundur,“ segir Guðmundur.
Næstkomandi miðvikudag mun Reykjavíkurborg standa fyrir kynningarfundi á Sundabraut í Grafarvogi. Búist er við að íbúar hverfisins muni sækja fundinn vel og koma skoðunum sínum á framfæri.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
