Efling loftvarna, stóraukin framlög til varnarmála og áframhaldandi stuðningur við Úkraínu var á meðal þess sem rætt var á fundi varnarmálaráðherra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sótti fundinn fyrir Íslands hönd.
Fundurinn fór fram í skugga vakandi eldflauga- og drónaárása Rússlands gegn Úkraínu, lofthelgibrota í Póllandi og Eistlandi og aukinna fjölþáttaaðgerða.
„Farið var yfir stöðuna í öryggisumhverfi Evrópu og áframhaldandi eflingu á vörnum og fælingu bandalagsins, ekki síst loftvarnir og varnir gegn drónum, þ.m.t. árvekniaðgerðir bandalagsins við landamæri Rússlands og árvekniaðgerðir við austurjaðar bandalagsins og á Eystrasalti,“ segir í tilkynningu frá stjórnarráðinu.
Ráðherrarnir ræddu einnig mikilvægi þess að framfylgja ákvörðunum um auknar fjárfestingar í varnargetu bandalagsríkja og áframhaldandi stuðning við Úkraínu.
„Við erum að horfa upp á vaxandi spennu og alvarleg atvik þar sem Rússland beitir hernaðargetu og fjölþáttaaðgerðum til að skapa hræðslu og óvissu.
Bandalagið stendur sameinað og sterkt, og heldur áfram að efla varnir sínar og fælingarmátt. Í því felast skýr skilaboð til Rússlands. Þá var rík samstaða um að halda áfram að styðja varnir Úkraínu sem eru samofnar okkar eigin öryggi. Þeirra varnir eru okkar varnir,“ er haft eftir Þorgerði Katrínu.
Fundað var jafnframt í NATO-Úkraínuráðinu með varnarmálaráðherra Úkraínu, Denys Shmyhal, sem greindi frá stöðunni á vígvellinum og friðarumleitunum.
Utanríkismálastýra Evrópusambandsins, Kaja Kallas, tók einnig þátt á fundinum og gerði grein fyrir áætlunum og aðgerðum ESB hvað varðar m.a. þvingunaraðgerðir og aðgerðir gegn skuggaflota Rússa.
Eftir að fundinum lauk var fundað í stuðningshópi ríkja í varnarbaráttu Úkraínu þar sem rætt var um skipulag og framkvæmd stuðnings ríkjanna við Úkraínu. Á fundinum greindi utanríkisráðherra frá áframhaldandi varnarstuðningi Íslands, m.a. fjárframlögum til sameiginlegra innkaupa með milligöngu bandalagsins í þágu Úkraínu og framlögum til þjálfunarverkefna, s.s. sprengjueyðingarverkefnis sem Ísland og Litháen leiða.
Þá undirrituðu Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin og Pólland samkomulag um sameiginlegt þjálfunarverkefni sem verið er að setja á fót í Póllandi og ætlað er að tryggja þjálfun og búnað fyrir úkraínska herinn.