Sjálfstæðisflokkurinn fengi níu borgarfulltrúa kjörna ef gengið yrði til kosninga í dag samkvæmt nýrri könnun frá Gallup sem gerð var fyrir Viðskiptablaðið þar sem flokkurinn mældist með 32,1% fylgi.
Í borgarstjórnarkosningunum í maí árið 2022 fékk flokkurinn 24,5% atkvæða og þar af leiðandi sex borgarfulltrúa. Samkvæmt könnuninni myndi flokkurinn bæta við sig 7,6% fylgi og þremur borgarfulltrúum og er þetta í fjórða sinn í röð sem flokkurinn mælist stærstur.
Samfylkingin mælist sem áður með næstmesta fylgið eða 28,3% fylgi og myndi þá fá sjö fulltrúa kjörna. En í maí 2022 hlaut flokkurinn 20,3% atkvæða og fimm fulltrúa kjörna.
Kannanirnar sýna ekki marktæka niðurstöðu milli flokkanna tveggja. Marktækur munur er þó á milli kannana á fylgi Framsóknarflokksins, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokksins.
Meirihluti Samfylkingar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna myndi samkvæmt þessum breytingum falla, þar sem hann fengi aðeins 10 borgarfulltrúa kjörna í stað 12, eins og hann hefur nú.
Vinstri græn og Sósíalistaflokkurinn minnka fylgi sitt á milli kannana. Samkvæmt nýjustu könnun Gallup mælast Vinstri græn með 3,3% og missa þar með sinn eina borgarfulltrúa.
Sósíalistaflokkurinn tapar einnig einum fulltrúa og stendur eftir með einn, en fylgi flokksins mælist nú 4,9%, sem er 4,2 prósentustigum minna en í fyrri könnun.
Píratar auka fylgi sitt og mælast nú með 6,8% fylgi, sem myndi þó aðeins duga til að tryggja þeim einn borgarfulltrúa. Í borgarstjórnarkosningunum síðast fengu þeir 11,6% atkvæða og þrjá fulltrúa kjörna.
Fylgi Framsóknar eykst einnig og mælist 4,3%, sem myndi skila flokknum einum fulltrúa, en í síðustu könnun hafði hann engan. Til samanburðar fékk Framsókn 18,7% atkvæða í síðustu kosningum og fjóra fulltrúa.
Viðreisn fékk einn fulltrúa kjörinn í kosningunum í maí 2022 en flokkurinn myndi nú fá tvo fulltrúa í borgarstjórn. Flokkur fólksins heldur sínum eina fulltrúa en Miðflokkurinn, sem ekki átti fulltrúa eftir síðustu kosningar, næði nú inn einum.
Könnunin var framkvæmd 15. september til 12. október 2025. Úrtakið samanstóð af 3.220 Reykvíkingum 18 ára og eldri en hlutfall þátttöku var 48%.