Skref tekið nær riðulausu Íslandi

Riðuveiki í sauðfé hefur gert bændum hér á landi lífið …
Riðuveiki í sauðfé hefur gert bændum hér á landi lífið leitt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breytingar á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim voru samþykktar á Alþingi 9. október en meginmarkmið laganna er að tryggja að unnt sé að innleiða þær tillögur sem lagðar eru fram í sameiginlegu stefnuskjali stjórnvalda og bænda, Landsáætlun um útrýmingu sauðfjárriðu.

Landsáætlunin var undirrituð sumarið 2024 af þáverandi matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, Hrönn Ólínu Jörundsdóttir, forstjóra Matvælastofnunar, og Trausta Hjálmarssyni, formanni Bændasamtaka Íslands, og var þar lögð áhersla á sæðingar til að rækta fjárstofn sem ber verndandi arfgerðir gegn riðuveiki.

Hefur valdið íslensku samfélagi þungum búsifjum

Í tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu segir að meginefni frumvarpsins sé þríþætt:

„Að atvinnuvegaráðherra verði fengin heimild til að setja í reglugerð skyldu til að rækta gegn dýrasjúkdómi, sem og að geta fyrirskipað ræktun.

Að atvinnuvegaráðherra geti falið Matvælastofnun með reglugerð að framfylgja tilteknum aðgerðum og að taka ákvarðanir í tengslum við uppkomu alvarlegra dýrasjúkdóma. Einnig að taka ákvarðanir um greiðslu bóta á grundvelli laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.“

Þá verði ráðherra einnig heimilt að setja ákvæði í reglugerð um flokkun landssvæða, bæja og starfsstöðva þar sem sérstakar ráðstafanir skulu gilda til að hefta útbreiðslu alvarlegra dýrasjúkdóma í samræmi við eðli viðkomandi dýrasjúkdóms og faraldsfræðilegra þátta.

„Það er gleðiefni að þessar mikilvægu breytingar nái í gegn,“ er haft eftir Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra.

„Riðan hefur valdið íslenskum bændum og íslensku samfélagi þungum búsifjum í gegnum tíðina. Þetta skref færir okkur nær takmarkinu um riðulaust Ísland.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert