Sakamáli Karls Wernerssonar, eins umsvifamesta fjárfestis landsins fyrir efnahagshrunið, hefur verið frestað á ný, nú til 15. desember þegar ný fyrirtaka fer fram í málinu. Stefnt er á að aðalmeðferð fari fram í byrjun mars.
Karl er ákærður fyrir skilasvik en hefur neitað sök í málinu. Gyða Hjartardóttir, eiginkona Karls, og Jón Hilmar Karlsson, sonur Karls, voru einnig ákærð í málinu fyrir peningaþvætti og hafa þau sömuleiðis neitað sök.
Í fyrirtöku málsins sem fór fram í morgun í Héraðsdómi Reykjaness áskildu verjendur Karls, Gyðu og Jóns Hilmars sér rétt til að leggja fram frekari gögn í málinu og eftir atvikum.
Þá óskaði verjandi Karls, Óttar Pálsson, þess að bókað yrði að Karl hefði nýverið öðlast að nýju aðgang að bókhaldi Lyfja og heilsu ehf. og Faxa ehf. frá árunum 2009-2017, en það bókhaldskerfi var áður talið óafturkræft eftir að hafa hrunið. Sagði hann að upplýsingar sem þar væri mögulega að finna gætu verið lagðar fram sem frekari gögn þar sem þau gætu haft áhrif á málsmeðferðina og að Karl væri nú með gögnin til skoðunar.
Málinu var því frestað og er ný fyrirtaka áætluð 15. desember. Jafnframt var tekin sú ákvörðun að stefna að því að aðalmeðferð fari fram 2. mars og er gert ráð fyrir að hún muni taka sjö virka daga. Þá upplýsti dómari málsins að dómurinn yrði fjölskipaður.
Málið tengist gjaldþroti Karls árið 2018 og því hvernig hann er sagður hafa komið dýrmætum eignum undan skiptastjóra þrotabúsins. Á meðal eigna sem um ræðir eru listaverk, fasteignir og félög skráð erlendis.
Samkvæmt saksóknara hafði Karl haft í umsjá sinni verðmætar eignir eftir að bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. Var hann sagður hafa afsalað þeim til einstaklinga og félaga sem tengjast honum persónulega eða fjárhagslega.
Þar á meðal voru einbýlishús við Blikanes, sumarhús á Ítalíu og Mercedes Benz-bifreið.
Eignirnar voru fluttar yfir á félagið Faxar ehf., dótturfélag Faxa ehf., sem var í eigu Toska ehf. Karl afsalaði Toska til sonar síns sem tók þannig óbeint við eignunum. Meðal eigna þessara félaga var fyrirtækið Lyf og heilsa.
Sonur Karls, Jón Hilmar Karlsson, er ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa tekið við félaginu Toska ehf., sem varð eigandi lúxusbifreiða og fasteigna, þegar faðir hans var formlega gjaldþrota. Samkvæmt dómi Landsréttar var ráðstöfuninni rift og sonurinn dæmdur til að greiða á þriðja milljarð króna til þrotabúsins.
Gyða, eiginkona Karls, er sömuleiðis ákærð fyrir peningaþvætti. Hún tók við eignarhaldi á félaginu Nordic Pharma Investment árið 2018, en það félag var skráð á Tortóla.