Eldur kviknaði í iðnaðarhúsnæði við Klettatröð 3 á Ásbrú í Reykjanesbæ á fimmta tímanum í morgun og var allt tiltækt lið Brunavarna Suðurnesja kallað út.
Að sögn Sigurðar Skarphéðinssonar, varaslökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Suðurnesja, er um talsverðan eld að ræða í húsnæðinu þar sem Köfunarþjónusta Sigurðar er til húsa en byggingin er um 900 fermetrar að hans sögn.
„Það eru 23 slökkviliðsmenn sem eru að glíma við eldinn en okkur barst tilkynningin um eldinn klukkan 4.12 í nótt,“ segir Sigurður við mbl.is.
Hann segir ekki talið að nokkur hafi verið í húsinu en eldurinn hafði breitt úr sér í húsnæðinu. Sigurður segir töluverð vinna sé eftir til að ná að ráða niðurlögum eldsins en engin önnur hús í nágrenninu eru í hættu að hans sögn.
„Ég reikna með að slökkvistarfið verði í gangi eitthvað fram morgni,“ segir Sigurður og bætir því að eldsupptök séu ókunn og verði rannsökuð af lögreglu þegar slökkvistarfi lýkur.
